18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

118. mál, eftirlits- og fóðurbirgðarfélag

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Nefndin hefir orðið ásátt um að mæla með frv. þessu, en gert við það nokkrar lítils háttar brtt. 1. brtt. a. er gerð í því skyni, að sveitarfjelögin hafi frjálsari hendur gagnvart Búnaðarfjelaginu um grundvallaratriði samþyktanna. 1. brtt. b. er til þess að skýra það, sem mun vera ætlast til í frv., að sveitarstjórnir hafi sýnishorn af samþyktum Búnaðarfjelagsins, er þær undirbúa samþyktir sínar. Síðari brtt. er að eins til þess að gera málið liðlegra.

Annars ætla jeg dálítið að minnast á, að búast má við, að svo fari um heimildarlög þessi, sem fleiri samskonar lög, að þau verði lítið notuð. En þó er eigi fyrir að synja, að það verði einhversstaðar gert og ef þau þá koma að góðum notum þar, má búast við, að fleiri komi á eftir.

Aðalatriðið í því, sem að er stefnt, er það, að á sje komið lágmarki ásetnings, og að forgangsmönnum þess sje sjeð fyrir valdi og lögregluaðstoð til að framfylgja því. Meginreglan þarf að vera sú, að einstaklingurinn sjái sjer sjálfur farborða, en þó sje til sameiginleg fóðurtrygging, ef í harðbakka slæst.

Ætla má einnig, að fjelagsskapur sem þessi verði til að bæta meðferðina á skepnum.

Jeg legg því til, fyrir hönd nefndarinnar, að hv. deild samþykki frv. þetta.