18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

118. mál, eftirlits- og fóðurbirgðarfélag

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Jeg býst við því, að nefndin muni athuga tillögur þær, sem fram hafa komið til breytinga á 2. gr. Hún hefir að vísu gert það nokkuð áður, án þess þó að breyta til, því henni fanst það ekki saka, að sem flestir greiddu atkvæði. Annars get jeg tekið það fram um þessa atkvæðagreiðslu yfirleitt, að jeg álít mjög varhugavert að þröngva svo stórum minni hluta, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, til að beygja sig undir samþykt, sem honum líkar ekki. Í minni sveit hefir t. d. verið reynt að hrinda af stokkunum slíkum fjelagsskap, sem hjer um ræðir, en það var þar almannaálit, að ekki væri út í það leggjandi, nema allir tækju þátt í því, eða að minni hlutinn væri að minsta kosti mjög lítill.

En um þetta lætur frv. sveitarfjelögin sjálfráð, og taldi nefndin því ekki neina knýjandi ástæðu til að breyta atkvæðahlutföllum þeim, sem það gerir ráð fyrir.