13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

118. mál, eftirlits- og fóðurbirgðarfélag

Björn R. Stefánsson:

Jeg verð að lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli komið fram. Jeg man ekki betur en að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) bæri fram á þinginu 1917 frv. um forðabúr. Við það frv. gerði jeg ýmsar verulegar brtt., sem hv. þm. (S. S.) þá lagðist á móti, en að aðalefni til gengu alveg í sömu átt og þetta frv., sem hjer liggur fyrir. Af því að jeg lagði allmikið kapp á, að þessar brtt mínar yrðu samþyktar þá, er mjer ánægja í að sjá þær nú að efni til birtast aftur í þessu frv., enda þótt þær næðu ekki fram að ganga þegar jeg flutti þær.

Jeg vil því lýsa yfir því, að jeg tel þetta frv. heppilegt og mun samþykkja það með mestu ánægju.