08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

144. mál, þingfararkaup alþingismanna

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að jeg mundi gera grein fyrir einstökum greinum frv., en jeg býst við, að jeg þurfi þess ekki; þær eru deildarmönnum kunnar.

1. gr. fer fram á, að kaup utanbæjarþingmanna hækki um 2 kr., en þm. Reykjavíkur sjeu jafnir hinum. Og í 2. gr. er gert ráð fyrir, að ferðakostnaður verði greiddur eftir reikningi, eins og áður átti sjer stað, í stað þess að gjalda ákveðna fjárhæð. Nefndinni leist óþarft að láta ákvæðið um ákveðna fjárhæð standa kyrra, vegna þess, að aldrei hefir verið farið eftir því; því að þm. hafa altaf fengið meira og minna af ferðakostnaðinum goldið eftir reikningi. Og það er fult útlit fyrir, að þetta muni verða svo framvegis, nema upphæðunum væri stórkostlega breytt. Og það virðist vera eðlilegast, að þm. fái borgaðan þann kostnað, sem þeir leggja út.

Launamálanefnd vildi láta þessa hækkun koma fyrir þetta þing, samkvæmt þeirri stefnu, að launabætur eigi ekki að ganga í gildi fyr en um næstu áramót.

Frv. þetta mætti dálítilli mótspyrnu við 1. umr. En jeg get ekki verið að rekja hana nánar, með því að jeg býst ekki heldur við, að hún hafi verið meint í alvöru. (S. S.: Jú). Einu andmælin, sem jeg hefði getað hugsað mjer að menn bæru fram, er að þetta væri kák. En jeg get ekki hugsað mjer, að neinn þm. álíti sig svo óstarfhæfan á þingi, að hann geri ekki kröfu til sama kaups og hann fengi við önnur störf. Og jeg geri ekki ráð fyrir, að neinn þm. greiði atkvæði á þá leið, að hann telji sig ekki vera starfhæfan mann. En hitt væri annað mál, að menn vildu taka upp þá reglu, að ekkert þingfararkaup skyldi greitt, þingmenskan væri með öðrum orðum einskonar heiðursstarf. En ef á að gjalda þingfararkaup á annað borð, þá er sanngjarnt, að það sje svo ríflegt, að þm. þurfi ekki að leggja beinlínis út peninga fyrir að fá að vera þingmenn.