17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

144. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eggert Pálsson:

Eftir því, sem mjer hefir skilist, er okkur flm. ekkert sjerlegt kappsmál um fyrri till. á þgskj. 848, ef menn skyldu ekki með neinu móti geta felt sig við hana. En okkur er aftur talsvert kappsmál um, að sama gangi yfir núverandi þm. og þá, sem munu sitja næstu þing, eða svo er það að minsta kosti fyrir mjer. Jeg vil ekki, frekar í þessu efni en öðru, sætta mig við auðsætt og ómótmælanlegt misrjetti. En úr þessu misrjetti má bæta með því að samþykkja síðari tillöguna, þótt hin fyrri sje ekki samþykt. Að ekki hefir verið farin þessi sjálfsagða leið, sem í síðari till. felst, hygg jeg að stafi af því, að samþykt var í launamálinu að greiða að eins dýrtíðaruppbótina fyrir síðara missirið 1919 samkvæmt launalögunum, en ekki launin sjálf. En það er ekki saman að jafna þingmönnum og embættismönnum. Væru þingmennirnir altaf hinir sömu, þá væri sjálfsagt, að hið sama gengi yfir þá og embættismennina. En svo er ekki. Enginn veit, hverjir af núverandi þm. sækja næsta þing. Í ár er sami kostnaður að þingsetunni og síst minni en verða mun á næstu þingum. Þess vegna á sama regla að gilda um launakjör þm. á þessu þingi og hinna, sem á eftir koma.