05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

141. mál, yfirsetukvennalög

Magnús Guðmundsson:

Jeg vildi að eins gera þá fyrirspurn til háttv. nefndar, hvort nokkuð mundi þýða að koma með brtt. um, að launin yrðu öll greidd úr sýslusjóðum. Jeg tel það mikið álitamál hvort rjett sje að breyta þeirri stefnu um launagreiðsluna, sem hingað til hefir verið fylgt.

Útgjaldaaukinn eftir frv. mun fyrir ríkissjóðinn nema um 20–30 þús. kr. á ári, eftir því, sem jeg kemst næst í fljótu bili.

Nú heyrði jeg hv. frsm. (M. P.) ekki telja aðrar ástæður fyrir þessari stefnubreytingu en þær að sýslusjóðirnir mundu eiga erfitt með að greiða fje þetta, þar sem það mundi gleypa allar tekjur þeirra.

En þetta er ekki rjett, þar sem sýslunefndir hafa heimild til að jafna niður þeim gjöldum öllum, sem sýslusjóðir þurfa að greiða. Þeim er því ólíkt hægara um vik að ná inn sköttum sínum en landssjóði.

Og það kemur alveg í sama stað niður, hvort menn greiða fje þetta í ríkissjóð eða sýslusjóð. Mjer sýnist þetta því vera óþarfar krókaleiðir og ekkert annað.

Þá er það líka víst, að ef helmingur launanna er greiddur úr ríkissjóði, þá er miklu hættara við því, að sýslunefndir leitist við að fjölga umdæmum óþarflega mikið.

Það má enginn halda, að jeg sje á móti launabót yfirsetukvenna, því að jeg tel hana sjálfsagða, en mjer finst það athugaverk að skifta þannig um stefnu frá því, sem verið hefir.

Nú eiga lög þessi að öðlast gildi 1. jan. 1920 en þá vildi jeg spyrja háttv. nefnd, hvort hún ætlast til þess, að launin verði greidd eftir þeim á næstu manntalsþingum, og þá á miðju ári. Þetta verður að vera skýrt. Því að sumstaðar munu launin hafa verið greidd fyrir fardagaár hvert.