05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

141. mál, yfirsetukvennalög

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hygg, að þetta frv. sje mjög rjettmætt og hækkunin nauðsynleg. En jeg get jafnframt að nokkru leyti tekið undir með hv. þm. Skagf. (M. G.), að það sje dálítið athugavert að fara að borga yfirsetukvennalaunin úr landssjóði, bæði í sveit og í kaupstað. Jeg vil greina hjer milli sveitahjeraðanna og kaupstaðanna. Það er engin ástæða til að hlaupa undir bagga með kaupstöðunum, því að bæjarsjóði munar ekki um það, sem þeir gjalda yfirsetukonum. Aftur getur þetta munað mjög miklu í sveitunum því laun yfirsetukvenna eru þar tilfinnanlega hærri. Jeg skal játa, að það er ýmislegt, sem gerir það örðugt að gera upp á milli kaupstaðanna og sveitanna, og get því vel skilið, að hv. nefnd ljeti sömu reglurnar gilda um hvorttveggja. En mundi ekki vera nóg að greiða 1/3 launanna úr landssjóði? Varla verða launin öll undir 60 þúsund kr.; þar af greiddust þá 20 þús. úr landssjóði. Því nú munu vera um 200 yfirsetukonur á landinu, og laun þeirra muni um 300 kr. að meðaltali.

En þetta getur aldrei út af fyrir sig orðið neitt „princip“-spursmál. Hitt er aftur sjálfsagt, að bæta launin, og skiftir minna máli, hvaðan þau koma. Og að gera ráð fyrir einhverju úr landssjóði býst jeg við að sje „malum necessarium“.