05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

141. mál, yfirsetukvennalög

Gísli Sveinsson:

Jeg vil að eins geta þess, að þótt menn sjeu hjer engan veginn á móti því, að kjör yfirsetukvenna sjeu bætt, þá er þessi bót meiri en til nokkurra annara starfsmanna þjóðarinnar, því að launin eru hjer nærri þrefölduð. Þetta kann að vera rjett undir vissum kringumstæðum, en of mikil hækkun finst mjer það yfirleitt. Því að það er tilfellið, eins og hv. 2. þm. Rang. (E. J.) tók fram, að víða er afarlítið að gera fyrir yfirsetukonur.

Ef launin verða hækkuð svona mikið, þá verða þau að greiðast úr landssjóði að miklu leyti, því að sýslunefndir gera sig ekki ánægðar með, að sýslurnar greiði þetta. Nú eru launin 70 kr. í þeim hjeruðum, þar sem íbúarnir eru 300 og þar undir, en nú eiga þau að hækka upp í 250 kr. eftir frv., eða nálega ferfaldast. Jeg álít, að launin eigi að hækka sannsýnilega, en þetta er alls ekki sannsýnilegt, sem frv. fer fram á.