09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

141. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg ætla ekki að tefja hv. deild með langri ræðu um þær brtt., sem komnar eru fram við þetta frv. Nefndin hefir haldið fund með sjer í morgun, síðan brtt. komu, og athugað þær. Vill hún nú reyna að miðla málum milli sín og tillögumanna. Jeg hefi síðan talað við suma hv. flutningsmenn brtt. á þgskj. 678, og hefi jeg eftir það samtal góðar vonir um, að samkomulag náist. Jeg skal taka það fram fyrir hönd nefndarinnar, að hún getur til samkomulags gengið inn á fyrstu brtt. a. á þgskj. 678.

Enn fremur vill nefndin til samkomulags fallast á 2. brtt. hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) á þgskj. 677. Hún er mitt á milli þess, sem nefndin lagði til, og brtt. á þgskj. 678, sem launaupphæð yfirsetukvenna. Jeg vænti þess, að hv. flm. þessarar brtt. sýni lipurð frá sinni hálfu og gangi móti nefndinni, til þess að samkomulag verði, eins og hún hefir gengið móti þeim. Mjer hefir líka skilist það á hv. flm., að þeir muni geta fallið frá á sinni brtt. staflið b., e og d., en munu aftur á móti halda fast við e.-lið. Jeg vil geta þess, hvað mig snertir og jeg hugsa að hið sama megi segja um samnefndarmenn mína, að við viljum ekki fara að gera neitt hark út af þessum atriðum. Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta mál að sinni. En ef tilefni gefst, er jeg reiðubúinn að færa skýr og góð rök fyrir því, að nauðsynlegt er að hafa góðar yfirsetukonur og láta þær eiga við sæmilega góð kjör að búa.