09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

141. mál, yfirsetukvennalög

Magnús Guðmundsson:

Jeg gat þess við 2. umr., að jeg myndi bera fram brtt. um greiðslu á launum yfirsetukvenna. Jeg gat þess líka, að sú brtt. myndi fara í þá átt, að öll laun þeirra yrðu greidd úr sýslusjóði.

Mjer finst undarlegt að vera að breyta þeirri reglu, sem gilt hefir hingað til um greiðslu þessara launa. Ástæður geta ekki verið aðrar en sú eina, að sýslusjóðir geti ekki launað þessum starfsmönnum. En sýslusjóðir eru einmitt þannig settir, að þeir þurfa ekki annað en að jafna niður eins mikilli upphæð og þarf til að standast gjöldin. Að því leyti eru þeir betur settir en ríkissjóður. Þeir gætu borið meiri gjöld, ef svo vildi verkast.

Hvað snertir miðlunartill. á þgskj. 678, þá sýnist mjer hún ekki bæta mikið úr. Það skiftir ekki mjög miklu í þessu efni, hve stór hluti er tekinn úr ríkissjóði, hvort þaðan er tekið einu þúsundi króna meira eða minna. Það er meginreglan, sem er aðalatriðið. Annaðhvort eru yfirsetukonurnar starfsmenn sýslufjelaganna eða ríkissjóðs. Ef þær eru starfsmenn sýslufjelaga, á að greiða þeim að fullu úr sýslusjóði, en sjeu þær starfsmenn ríkisins, á ríkissjóður að launa þeim. Það er því óheppilegt og rangt að blanda þessu saman, og ekki verður þetta betra fyrir það, að undantekning er svo aftur gerð um kaupstaðina, þannig að þeir skuli borga öll launin til sinna yfirsetukvenna. Ef það er sanngjarnt, að kaupstaðirnir borgi að öllu leyti, þá er jafnsanngjarnt, að sýslufjelögin borgi.

En aðaltilgangur minn er sá, að reyna að koma í veg fyrir, að farið sje inn á þá braut, að ýta yfir á landssjóð að borga laun þeirra, sem eru starfsmenn sýslu- og sveitarfjelaga. Það virðist alveg nóg, að ríkissjóður kosti kenslu yfirsetukvenna að öllu leyti.

Um 2. brtt. þarf jeg ekki að ræða, þar sem nefndin hefir gengið inn á hana, og 3. brtt. er sjálfsögð leiðrjetting.