09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

141. mál, yfirsetukvennalög

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg vildi að eins mæla móti brtt. á þgskj. 678, þótt jeg búist ekki við, að það hafi mikla þýðingu, þar sem að henni standa 6 flutningsmenn, og nefndin þar að auki fallist á hana. Skal jeg þó ekki leggja svo mjög upp úr tölu flutningsmannanna, því að mjer heyrðist á ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem er einn flutningsmanna, að hann kærði sig ekki um till., og má það heita eðlilegt.

Þessi skifting á greiðslu launanna, að greiða til sveita nokkuð úr landssjóði, en láta kaupstaði greiða algerlega sjálfa, finst mjer ekki rjettmæt. Mjer finst það ósköp nánasarlegt að flokka landsmenn þannig eftir því, hvar þeir eru búsettir. Jeg held, að kaupstaðirnir eigi ekki svo miklu minna tilkall til landssjóðs en sveitirnar, að vert sje að vera að þessari skiftingu.

Jeg vænti því, að hv. deildarmenn greiði ekki slíkri till. atkv. Það yrði landssjóði lítt til búningsbóta, og er síst flutningsmönnum till. til vegs.