09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

141. mál, yfirsetukvennalög

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla ekki út í deilur út af þessum brtt. En hv þm. Barð. (H. K.) vildi jeg benda á, að hann er að þyngja á sýslusjóðunum með till. á þgskj. 678, alveg eins og jeg. Það er ekki ýkjalangt á milli okkar. Þess vegna er undarlegt, að hann skuli leggja mjer það til lasts, að jeg er á sömu skoðun og hann. (H. K.: Svo er ekki!). Við erum báðir á því, að hv. nefnd hafi tekið fullmikið af sýslusjóðum og skelt á landssjóð.

Og þegar hv. þm. talaði um það sem jeg hefði sagt um niðurjöfnun. þá tók hann ekki nema nokkurn hluta þess, sem jeg sagði. Jeg sagði, að sýslusjóðir væru betur settir en landssjóður til að taka gjöldin og jafna þeim niður eftir vissum reglum, sem sje að 2/3 á saman lagða tölu ábúðar- og lausafjárhundraða og að á verkfæra menn, en þá aðferð getur ríkissjóðurinn ekki haft. Þetta er verulegur munur, og því undarlegra er að vera að demba þessu á ríkissjóð nú, þegar menn eru í vandræðum með að finna tekjustofna. En það er öðru máli að gegna um sýslusjóðina, því að í sýslunum eru tekjustofnarnir fyrir hendi. Jeg sje því enga ástæðu til breytingar, en ef hún væri nokkur, þá væri það helst sú, að yfirsetukonurnar væru engu síður starfsmenn ríkissjóðs heldur en sýslusjóðs, en hingað til hefir ekki verið litið svo á, því yfirsetukonulögin frá 1912 bera það með sjer, að þær sjeu starfsmenn sýslusjóðs, en ekki ríkissjóðs. Hvað snertir það, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) segir, að jeg skoði mig í þessu máli sem talsmann ríkissjóðs samkvæmt stöðu minni utan þings, þá vil jeg fræða hv. þm. (G. Sv.) um, að jeg skoða mig einmitt sem þingmann vörð ríkissjóðs, og það ætti þessi hv. þm. (G. Sv.) líka að gera.

Tilraun hv. þm. Barð. (H. K.) um að slá sig til riddara á orðum mínum þarf ekki að svara, því að það mistókst fyrir honum, eins og svo oft, af því að þekkinguna vantaði alveg.