09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

141. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg vildi að eins gera ofurlitla athugasemd, aðallega út af ræðu hv. þm. Barð. (H. K.) Mig furðar sem sje á, hversu grimmur hann er orðinn í garð yfirsetukvenna. (E. A.: Er hann hættur að eiga börn?). Hann var að tala um kúfvendingar sumra hv. þm., og finst mjer það furðu skrítið af honum. Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að þegar þetta mál var fyrst til umr. í samvinnunefnd launamálanna, þá var sett í það undirnefnd, og skipuðum við hana, jeg og hv. þm. Barð. (H. K.) og hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.). Jeg samdi að vísu frv. það, sem lagt var fyrir nefndina, og vissi jeg ekki betur en bæði hv. þm. Barð. (H. K.) og hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) gengju inn á það, að öðru leyti en því, að hv. þm. Barð. (H. K.) var á móti hámarkinu, vildi hafa 800 kr. í stað 1000 kr. Í þessu frv. var ákveðin sama launaupphæð og nefndin ætlar nú að sætta sig við, sem sje 200 kr. lágmark. Það er því ekki rjett af hv. þm. Barð. (H. K.) að vera að ásaka með þingmenn sína um vindhanaeðli. Furðar mig að jafn mætur maður“ og hv. þm. (H. K.) er skuli vera svona harðorður í garð þeirra.

1. þm. Reykv. (J. B.) vil jeg benda á það að þessi till. um að skilja kaupstaðina út úr er komin frá þingmanni úr einum kaupstaðanna, og það frá samþingismanni hans, hæstv. forsætisráðh. (J. M.), en það skiftir auðvitað litlu máli. Vil jeg þó benda hv. þm. (J. B.) á, til þess að fá atkvgr. um þetta sjerstaklega, að það mætti skifta brtt. í tvent. (J. B.: Það er ekki hægt). Menn tala hjer um, að sýslunefndirnar hafi ekki verið spurðar að því hvort mætti hækka. Jeg veit ekki til, að það hafi verið gert heldur 1912. (H. K.: Það var ekki svona óskapleg hækkun). Þá var hækkað á þeim um helming, og þær ekki að spurðar, og var sú hækkun miklu gífurlegri, borin saman við verðgildi peninga.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er altaf að klifa á því, að ekki hafi komið fram neinar kröfur um hækkun frá yfirsetukonum. Þetta er ekki annað en staðhæfing hjá hv. þm. (G. Sv.), og þessa staðhæfingu getur hann að eins bygt á andanum á þeim stöðum, sem hann þekkir til. Og jeg staðhæfi hið gagnstæða, eftir því sem jeg þekki til. Þar stöndum við því báðir jafnt að vígi. (G. Sv.: Hvorum fylgja fleiri?). Yfirsetukonur? (hlátur). Þessi sami hv. þm talaði um, að þetta væru of há laun, en þá finst mjer nú flest laun fara að vera há, þegar 150 krónur eru farnar að vera það.