12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

152. mál, vörutollur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta litla frv. er flutt hjer eftir beiðni hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), og geri jeg ráð fyrir, að hann mæli með því, ef honum þykir ástæða til. Jeg ætla þess vegna ekki að fara ítarlega út í þetta frv., en vil þó geta þess, að annað frv. um sama efni er á ferðinni í hv. Ed., og álít jeg rjett, að menn athugi það og taki þegar í upphafi afstöðu til þess, hvort þessara tveggja frv. eigi að verða að lögum. Þau reka sig hvort á annað og geta ekki bæði orðið að lögum. Bæði frv. fara fram á samskonar hækkun á sama gjaldi, en frv. í Ed. er auk þess um aðrar breytingar á vörutollslögunum. Jeg álít rjettara að fylgja þessu frv., sem hjer liggur fyrir. því hitt frv. fer meðal annars fram á að nema úr gildi lög, sem hafa verið framlengd á þessu þingi.

Um frv. sjálft er ekkert að segja. Hækkunin, sem farið er fram á, er sniðin þannig, að hvergi stendur á eyri, eins og jeg hefi heyrt raddir um; þannig verður t. d. gjaldið í 1. flokki 30 aur., í öðrum flokki 75 aur., í 3. flokki 9 kr., í 5. flokki 9 aur. og í 6. flokki 3 kr., alt miðað við 50 kg. 4. flokkur fellur burt vegna hinna nýju laga um salt og kol, þó þannig, að kolin falla þá fyrst burtu, er einkasala hættir.