17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

154. mál, ullarmat

Frsm. (Eggert Pálsson):

Meiri hluti launamálanefndarinnar hefir komið fram með frv. það, er hjer liggur fyrir. Það mun hafa vakað fyrir nefndinni, eða mjer að minsta kosti, að 10,000 kr. væru hæfileg laun handa ráðherrunum, enda í samræmi við það, að það er hámark embættislauna í launafrv., en þar eru forstjóra hæstarjettar ætluð 10 þús. kr. laun. Í nágrannalöndum vorum, að minsta kosti í Danmörku, eru og laun ráðherra og hæstarjettarforstjóra gerð jöfn, eða svo hefir verið alt til þessa. En með brtt. á þgskj. 866 er farið fram á það að veita ráðherrunum 2000 kr. hærri laun en þessi hæstlaunaði embættismaður landsins á að hafa, eða með öðrum orðum 12 þús. krónur.

Jeg býst nú ekki við, að þetta mál sje nokkurt kappsmál á hvoruga hliðina; að minsta kosti er það það ekki hvað mig snertir. Það var að eins þetta, sem fyrir mjer vakti, að launin væru svo há, að ráðherrarnir væru sæmilega haldnir og þyrftu ekki að fást við önnur störf, enda þætti mjer ótrúlegt, að þeir myndu gera það með þeim launum, sem frv. tiltekur, með því að þeir mundu í sjálfu sjer hafa nóg að starfa sem ráðherrar, eins hjer eftir sem hingað til. Hins vegar taka menn ekki þessa stöðu launanna vegna, eða þótt launin sjeu 1 eða 2 þúsundum kr. hærri eða lægri, heldur af pólitískum ástæðum og til þess að koma einhverju gagnlegu til vegar.

Ekki geri jeg ráð fyrir því, að launahækkun muni hafa það í för með sjer, að hlynna þurfi síður að fráförnum ráðherrum en áður. Jeg býst við því, að þingið eða ríkið, eins og hingað til, telji sig til þess neytt á einhvern hátt að sjá þeim borgið, hvort sem launin verða 12 þús. eða 10 þús.