03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

135. mál, húsagerð ríkisins

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg tók það fram í framsöguræðu minni áðan, að fjárveitinganefnd þótti nauðsyn bera til, að eitthvað væri gert í þessu máli. Það má má ske deila um landsspítalann. En hann verður hvort sem er ekki bygður á næsta fjárhagstímabili, þó þetta verði samþykt. Læknafjelagið hefir lýst því yfir, að það telji lífsspursmál, að hann verði reistur hið allra fyrsta, eins og líka tekið er fram í greinargerð fyrir frv.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók það fram að þetta væri gert vegna tekjuhallans í fjárlögunum. Og er jeg honum alveg samdóma um að varla sje við hann bætandi. Hv þm. vill, að Hvanneyrarbyggingin verði tekin upp í fjárlögin. Við erum því báðir á einu máli um það, að óhjákvæmilegt sje að reisa þá byggingu úr rústum. Það er skilyrði fyrir því, að skólinn geti starfað næsta vetur.

Með geðveikrahælið á Kleppi er líku máli að gegna. Nefndinni var fullljóst, að sú bygging þolir ekki að bíða 2 næstu ár. Hælið er þegar orðið of lítið. Sjúklingar komast þar ekki að lengur. Svo að til vandræða horfir fyrir þá hreppa og þau hjeruð, sem fyrir þá sök verða að sitja með sjúklinga, sem eru jafnerfiðir viðfangs, í ljelegum og þröngum húsakynnum. Það er því skylda þingsins að ráða bót á þessu sem allra fyrst. Og það er ekki hægt með öðru móti en auka sem fyrst við hælið.

Hvað það snertir, að taka nú þegar í fjárlögin eitthvað af þessum byggingum, það sje jeg ekki að sje tiltækilegt. Það þarf að reisa þær hvort sem er. Afleiðingin af því yrði ekki önnur en sú, að stjórnin þyrfti að bæta við þau lán, sem henni er nauðugur einn kostur að taka. Hjer er aftur tekin upp sú aðferð, að kostnaður af þessum framkvæmdum á að greiðast á fleiri árum, og kemur þá líka niður á eftirkomendurna, eins og sanngjarnt er. Jeg hygg, að ekki sje ástæða til að örvænta um, að fjárhagurinn batni þegar tímar líða, og að þetta verði ekki mjög tilfinnanlegt. Jeg skal ekki deila við hv. 1. þm. Árn. (S. S.) um það, hvort þetta sje hyggileg fjármálastefna. En nú er svo komið, að ekki er hægt að taka öll þjóðþrifafyrirtæki inn í fjárlögin; því er farið inn á þessa braut. Jeg skal játa, að jeg hefði helst kosið, að ekki þyrfti til þessa að taka. Æskilegast væri, að þessar byggingar væru teknar í fjárlögin jafnóðum og þær væru bygðar. En til þess sá nefndin enga leið. Þó að þessar framkvæmdir gefi ekki beinan arð í aðra hönd, þá er hjer um þjóðþarfafyrirtæki að ræða, sem löggjafarvaldinu er skylt að annast. Jeg hefi drepið á það fyr í ræðu minni, að til vandræða horfir með rúmleysi á Kleppi. Þeir, sem ekki komast þangað, eru sínum vandamönnum til mikils baga og vandræða. Þetta fanst nefndinni svo knýjandi ástæður, að ekki mætti láta dragast að bæta úr því. Þetta nær líka til íbúðarhússins á Hvanneyri. Hitt er annað mál, að jeg geri ekki ráð fyrir, að byrjað verði á landsspítalanum á næsta fjárhagstímabili. Það mál þarf langan og mikinn undirbúning. Geri jeg því ráð fyrir, að ekki þurfi að taka stórlán til þessara bygginga næsta fjárhagstímabil. Fyrst verður að gera undirbúning, og til þess þarf ekki ýkjamikið fje.