03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

135. mál, húsagerð ríkisins

Benedikt Sveinsson:

Jeg skal ekki mæla mikið gegn þeirri aðferð, sem háttv. fjárveitinganefnd hefir tekið með því að bera fram sjerstakt frv. um húsabyggingar. Jeg sje ekki beina nauðsyn á að hrapa svo að því, sem gert er, og hefði kosið, að hægt hefði verið að dreifa því á fjárlögin um nokkur ár. Mjer virðist frv. samið í flýti og sýnist, að nefndin hefði mátt láta það bíða til næsta árs, til þess að það yrði skár úr garði gert. Hjer vantar auðsjáanlega mörg hús, sem gera þarf áður langt um líður. Það er enginn vafi á því, að það eru fleiri hús en tekin eru upp í frv., sem landið þarf að láta reisa á nálægum tíma. Og jeg sje ekki betur en að rjettast sje að nefna í lögunum öll þau hin helstu hús, sem landið þarf að reisa á næstu árum, ef á annað borð er farið að setja lög um það efni. Meðal annars hefir oft verið rætt um, að reisa þyrfti hús handa háskólanum og sje jeg ekki betur en ákvæði um fjárveitingu til þess fyrirtækis ætti að vera tekið upp í þetta frumvarp. Þá hefir og verið kvartað um það, að þröngt væri orðið í safnahúsinu. Hefir legið við borð, að náttúrugripasafninu væri vísað út á gaddinn, en einhversstaðar verður það að vera, og sje jeg ekki betur en þar sem svona er orðið þröngt í safnahúsinu, þá verði að reisa nýtt hús til viðauka handa söfnunum, eftir nokkur ár. Það er og alkunnugt, að ýmsar þjóðarstofnanir vantar húsaskjól og eru í vandræðum. Er mjer kunnugt um, að t. d. hagstofan, brunabótafjelag Íslands skrifstofur vegamálastjóra og vitamálastjóra og m. fl., verða að leigja herbergi af einstökum mönnum, sitt í hverjum stað og hafa þó ófullkomin húsakynni og sum að eins um stundarsakir. Þessu er alls enginn gaumur gefinn í frv., þótt það væri sjálfsagt og óhjákvæmilegt sje, áður en langt um líður, að landið reisi hús handa þessum stofnunum. En þessar gloppur sýna hve frábærlega flausturslega hefir verið kastað höndum til frv. Alþingi þarf að hafa yfirlit yfir þau hús, sem reisa þarf á næstu árum, en nefndin virðist vera engu nær í þeim efnum, að eins hafa tekið nokkur hús af hreinu handahófi upp í frv. sitt. Líka hefir flogið fyrir, að stjórnin ætlaði sjer að kaupa steinhús handa ýmsum þjóðstofnunum, en engin heimild er veitt til þess í frv., og hefði slík heimild þó átt þar heima, ef stjórninni er þetta alvörumál.

Alt bendir þetta á, að frv. þetta sje næsta fljótsamið. Það er annar höfuðgalli á frv., að alls engin kostnaðaráætlun er í því fólgin. Það mætti þó ekki minna vera en svo væri. Jeg veit að vísu, að það mundi taka tíma að gera hana, og ekki víst, að hún reyndist nákvæm í framkvæmd, en þó ætti hún ekki að þurfa að vera skeikulli en margar fjárveitingar þingsins eru. — En, sem sagt, hjer er engin minsta tilraun gerð til þess að upplýsa, í hvern kostnað verið sje að ráðast.

Mjer virðist ekki hægt að samþykkja frv. fyr en stjórnin hefir rannsakað, hvað byggingarnar kosti, enda eigi hægt að framkvæma lögin fyr, því ekki er hægt að ákveða fjárhæð lánsins, sem heimilað er, nema fyrst sje rannsakað, hversu mikils fjár þarf með.

Það væri broslegt að senda lánbeiðendur ár eftir ár út í lönd til þess að fá lán út á sömu kofana.

Frumvarp þetta er með líku sniði sem frv. um búargerðir, er samþykt hefir verið hjer í þessari hv. deild. Jeg býst nú við, að Alþingi reisi sjer hurðarás um öxl, ef það ætlar að bæta þessari húsagerð ofan á vegagerð og brúasmíð á einu eða tveimur árum. Mundi það draga mannafla frá öðrum atvinnuvegum og hækka kaupgjald úr hófi fram, enda mundu verk þessi ver af hendi leyst, ef þeim væri hroðað af á skömmum tíma. Það er eigi svo glæsilegt að fást við húsasmíð sem stendur, að neinu væri niður slökt, þótt málið væri athugað betur, áður en gengið er frá því til fulls.

Mjer sýnist engu spilt, þótt frv. falli, en á hinn bóginn getur allmikið unnist við að búa það vel undir og gera það sæmilega úr garði. Það mundi meðal annars spara mjög tíma þingsins, því að ella þarf þing eftir þing að koma með nýjan „viðauka við lög“ og viðauka við þann viðauka, — ef þingið gefur sjer aldrei tíma til að ganga skaplega frá lögunum. Tel jeg því rjett, að frv. sje felt að þessu sinni.