03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

135. mál, húsagerð ríkisins

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að byrja með þakkarávarpi til hv. 1. þm. Árn. (S. S.), fyrst og fremst af því, að hann hefir snúið við blaðinu síðan við 1. umr., og svo af því, að hann hlóð mig ekki oflofi. Jeg kann því ekki að vera lofaður um of af þeim manni; þykir betra hið gagnstæða. (S. S.: Aldrei skaltu deyja úr oflofi frá mjer). Undarlegt þykir mjer þegar menn eru að misskilja jafneinfalt mál og þetta er. Það hefir enginn verið að tala um, að þetta ætti alt að reisa á einu ári. Stjórnin hefir heimildirnar, en þarf ekki að nota þær fyr en byrlegar blæs. Jeg er sammála hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að frv. ætti að ná yfir allar opinberar byggingar. En auðvitað verða þær ekki reistar allar í einu, heldur smám saman, og þá kemur að því að skera úr því, hverjir eigi að ganga fyrir. Að vísu er það rjett, að nauðsyn beri til þess, að reist sje íbúðarhús á Hvanneyri. En þegar fyrir stríðið heyrðust raddir úr öllum kjördæmum um að byggja við Klepp, og skilst mjer því, að þetta megi ekki dragast öllu lengur. Ef hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) vill á annað borð styrkja þessar byggingar með því að taka þær upp í fjárlögin, þá virðist mjer honum mætti á sama standa, þó ákvæðið um þær stæði í þessu frv., sjerstaklega þar sem kostnaðarmunurinn yrði enginn, og framkvæmdunum hagað eftir því, sem henta þykir.