03.09.1919
Neðri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2102 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

135. mál, húsagerð ríkisins

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg heyrði ekki áðan spurninguna um Klepp, því annars hefði jeg svarað því og gefið þær upplýsingar, sem hv. þm. (B. Sv.) óskaði. En jeg hjelt það óþarft, enda var víst búið að taka þetta fram áður. Guðjón Samúelsson er nú farinn utan, til að kynna sjer samskonar byggingar annarsstaðar, og sníða bygginguna á Kleppi eftir því, ef fje fæst.

Nánasta orsökin til þess, að sjerstök lög eru samin, er sú, að fjárveitinganefnd treystist ekki til að taka svo mikla upphæð í fjárlögin og er jeg nefndinni þar sammála. Ef þessi leið verður ekki farin, þá er ekki annað fyrir en að fresta þessari byggingu, því jeg get ekki annað en tekið ástæður fjárveitinganefndar til greina.

Þá fann hv. frsm. (B. Sv.) frv. það til foráttu, að ekki væru tekin upp nógu mörg hús. Það getur verið deilumál, hve mörg hús á að taka með, en ef hv. þm. (B. Sv.) er alvara með þetta, þá getur hann komið með brtt. í þá átt við 3. umr. Jeg sje því ekki annað en að hann geti þess vegna greitt atkvæði með frv. nú.

Jeg vil ekki lengja þessa umr., enda býst jeg við, að það hafi lítil áhrif á atkv. Mjer þykir leitt, að hv., þm. N.-Þ. (B.

Sv.) hefir tekið ummæli mín illa upp; jeg talaði ekki á þann hátt að tilefni væri til slíks. Jeg svaraði að eins þeim athugasemdum og spurningum, sem hv. þm. (B. Sv.) skaut fram.