17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

135. mál, húsagerð ríkisins

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get í aðalatriðunum verið ánægður með undirtektir hv. nefndar um frv. Jeg sje ekki ástæðu til að deila við nefndina um hvort heppilegra hefði verið að hafa hjer líka húsið á Hvanneyri eða ekki, svo framarlega sem nægileg viðbótarfjárveiting verður tekin upp í fjárlögin. Það er ætluð fjárveiting til þess í fjáraukalögunum, en það fje er ónógt, og ómögulegt að byggja húsið fyrir þá upphæð, sem þar er veitt. Verði því ekki veitt viðbót í fjárlögunum, þá verður bygging þessi að standa í frv.

Jeg hefi ekkert á móti því, að húsmæðraskóli Norðurlands verði tekinn upp í frv. Það er búið að lofa þessum skóla, og það er sjálfsagt að koma honum svo fljótt upp, sem auðið er, en jeg geri ráð fyrir, að það verði dregið þangað til byggingarefni lækkar, eins og allir vona að verði.

Það er, eins og segir í nál., þörf á fleiri húsum, en það má altaf bæta þeim við, og þegar þing verður háð á hverju ári, hefir þetta minni þýðingu.