17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

135. mál, húsagerð ríkisins

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Aðallega ber hv. nefnd að eins fram 2 brtt. frá því, sem frv. kom frá hv. Nd.

Fyrri till. er að fella niður húsið á Hvanneyri, en þar sem veitt er fje til þess í fjáraukalögunum, þá hefir þingið samþykt þá byggingu. Húsið verður bygt svo að altaf verði hægt að stækka það, enda er það nauðsyn, því aðsókn að skólanum hefir altaf farið vaxandi. Hann rúmar ekki nema 50 nemendur, en um hann hafa oft sótt yfir 100 manns. Þó fjárveiting sú, sem veitt var, sje ónóg, þá vænti jeg þess, að næsta þing samþykki það, er á vantar. En þó þessari húsbyggingu megi bjarga á þennan hátt, tel jeg, að rjettara hefði verið að láta hana fylgjast hjer með, enda geri jeg ráð fyrir, að hv. Nd. bæti Hvanneyrarhúsinu aftur inn í frv., en lofi húsmæðraskólanum að standa, og þessi hv. deild geri þá ekki frekari ágreining um frv.

Hitt atriðið er að bæta húsmæðraskóla Norðurlands inn í frv., og vona jeg, að ekki þurfi að tala mikið um það; jeg hygg, að það sje svo ljóst, að það mæti engri mótspyrnu í þessari hv. deild. Jeg vil því láta mjer nægja að mæla hið besta með því.