17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

135. mál, húsagerð ríkisins

Magnús Torfason:

Jeg vil leiðrjetta þann misskilning, sem fram hefir komið. Jeg hefi aldrei talið þessar byggingar óþarfar, en jeg hefi sagt, að sumar þeirra væru ekki óhjákvæmilega nauðsynlegar nú þegar.

Hv. þm. Ak. (M. K.) þarf jeg annars ekki að svara; okkur kom ósköp vel saman í þessu. (M. K.: Eins og oftast nær). Jú, jú, það var að eins landsspítalinn, sem okkur kom ekki alveg saman um.

Það er alveg rjett, að hann á að vera uppeldisstofnun fyrir læknaefnin. Að því er Reykjavík snertir vegur þar á móti, að hún nýtur spítalans mest, og bestu læknanna og sjerþekkingarinnar á þessu sviði, svo ekki dregur það úr því, að Reykjavík eigi að leggja sjerstaklega af mörkum til landsspítalans. Annars er það auðvitað, að jeg vil ekki vera að ganga á móti rjetti Reykjavíkur, fæðingarbæjar míns en hins vegar ekki gera öðrum órjett hans vegna.

Friðriksspítalinn, sem hjer hefir verið talað um, kemur þessu máli ekki við, af því þar er nú um stofnun alveg sjerstaks eðlis að ræða, sem sje fæðingarstofnunina. (Forseti: Ósköp er að heyra þetta). Því mun ekki neitað, að fæðingarstofnunin er þar.

Jeg gleymdi annars að benda á það áðan, að nú er svo komið, að bráðum má kannske taka eitthvað af holdsveikraspítalanum fyrir sóttnæma sjúkdóma.

Að lokum skal jeg geta þess, að jeg hefi tekið aftur nokkuð af till. minni, svo nú kemur að eins til atkvæða seinni liður varatill. Og jeg legg áherslu á, að þetta verði samþ., því Reykvíkingar munu gleypa við því að fá spítalann, jafnvel þó þeir verði eitthvað af mörkum að leggja sjerstaklega.