22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

135. mál, húsagerð ríkisins

Benedikt Sveinsson:

Mjer sýnist frv. hafa tekið miklum bótum í Ed. Spítalinn kemur tvímælalaust Reykvíkingum að mestum notum, þar sem hann á að vera hjer í bænum. Og þar sem íbúar Reykjavíkur eru 1/6 af allri þjóðinni, þá tel jeg það ekki ofverk þessa bæjar að kosta bygginguna að einum fjórða. Jeg veit ekki til, að nokkur þörf sje á því að fara að byggja sjerstakan sóttvarnarspítala, því jeg veit ekki betur en að tvö sóttvarnarhús sjeu til í bænum, annað fyrir vestan bæ, sem nú mun vera í góðu standi, hitt gamli spítalinn í Þingholtsstræti, sem nú er verið að rýma úr leigjendum, til þess að geta einangrað þar taugaveikissjúklinga. Jeg sje því enga ástæðu til þess fyrir Reykjavíkurbæ að vera að bola sjer undan því að taka sjerstakan þátt í kostnaðinum við byggingu landsspítala, eins og aðrir landshlutar hafa gert, þegar um spítalabyggingar hefir verið að ræða í þeim.

Þá sje jeg ekki heldur, að brtt. um að bæta inn í frv. byggingu íbúðarhúss á Hvanneyri sje til bóta. Því hefir verið lýst yfir skýlaust áður hjer í þinginu, af einum ráðherranna, að tilætlunin væri að veita ekki meira fje til Hvanneyrarskólabyggingarinnar en þær 60 þús. kr., sem búið er að samþykkja, og að það væri fullnaðarfjárveiting. Þetta kemur því nokkuð öfugt við það, sem hæstv. stjórn lýsti þá yfir mótmælalaust, og vil jeg fyrir mitt leyti ekki leggja með, að slík till. sje samþykt, nema full rök komi fram fyrir þessum miklu veðrabrigðum.