12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er flutt fyrir tilmæli stjórnarinnar og gengur út á það, að veita stjórninni heimild til að halda áfram einkasölu á kolum um ákveðinn tíma, og leggja toll á þau þegar einkasölunni sleppir. Stjórnin á að geta hætt þegar henni þóknast, en þó má hún ekki hafa einkasöluna lengur en til 1. júlí. Stjórnin óskaði ekki, að ákveðinn tími væri tiltekinn, en nefndinni þótti rjettara að hafa einhvern ákveðinn tíma, en vitanlega getur það verið samningsatriði, hve langur hann skuli vera, og er hægt að færa hann fram og aftur.

Frv. er sniðið eftir frv. um toll á salti og bygt á sömu rökum, og verður tollurinn feldur burtu þegar hallinn á kolaversluninni er unninn upp. Stjórnin óskaði þess ekki, en nefndin taldi líklegra, að hv. deild vildi verða sjer samkvæm og haga sjer eins um kolin og saltið.

Skaði landsverslunarinnar á kolum mun hafa verið sem næst 1 miljón um síðustu mánaðamót, og verður þá tollur lengi en annars er ómögulegt að segja hvað lengi, því enginn veit, hversu mikið inn verður flutt. Það hefir verið mjög mismunandi hin síðari ár, og hefir verið frá 19 til 113 þús. smál., en 1918 voru fluttar inn um 20 þús. smálestir. En á þessu verður varla nokkuð bygt um innflutning í framtíðinni, en jeg býst við, að stjórnin geri nánari grein fyrir frv., þar sem það er flutt að beiðni hennar.