15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Fjármálaráðherra (S. E.):

Stjórnarskrármálið hefir verið til umr. í Ed., og jeg orðið að vera þar; þess vegna hefi jeg ekki getað hlustað á umræður hjer nema að litlu leyti.

Um brtt. á þgskj. 806 er það að segja, að stjórnin ætti að geta orðið með henni, því hún æskti aldrei eftir því, að beint tímatakmark yrði sett fyrir því, hve nær einkasalan á kolum skyldi hætta. En hins vegar hefir það altaf verið ætlun hennar að láta hætta svo fljótt, sem framast er unt.

Það er alls ekki meiningin að vinna upp með þessu gjaldi neinn halla af fyrstu kolakaupunum. En kol landsverslunarinnar voru um áramót ca. 14000 tonn, og mest af þeim keypt dýru verði. En svo þótti sjálfsagt að setja verðið niður, en á því varð tapið, sem hjer hefir verið rætt um. Og þar sem þessi niðurfærsla á kolunum var eingöngu gerð fyrir þá, sem notuðu kolin, þá virðist ekki ósanngjarnt, að þeir sömu borgi þennan halla.

Hv. 2. þm. Árn. (E A.) talaði um, að þetta gjald kæmi hart niður á botnvörpungunum. En það kemur ekki harðara niður en þótt einkasölunni væri haldið áfram, því nú er með henni gert ráð fyrir, að lagður sje á 20 kr. skattur. Jeg skyldi ekki leggja á móti því, þótt tollurinn yrði færður niður í 15 kr., ef það gæti orðið til þess, að alment samkomulag kæmist á. Skal jeg því fyrir mitt leyti ekki setja mig á móti því, þó að brtt, hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) nái fram að ganga.