24.09.1919
Efri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

153. mál, aðflutningsgjald af kolum

Magnús Torfason:

Þar sem svo hefir farið að einn háttv. nefndarmaður hefir ekki getað orðið nefndinni í heild samferða — en það vissum við ekki áður, — verð jeg að gera grein fyrir mínu atkv. Jeg get sem sagt ekki verið með frv., ef tollurinn verður 10 kr., því þær álögur koma þyngst niður á mestu smælingjunum. Jeg kýs því heldur, að málið verði látið afskiftalaust á þessu þingi, allra helst þar sem þing kemur saman fyr eða síðar á næsta ári, og þá er nógur tími til að ákveða, hvort halda eigi eða hafna landsversluninni.