15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

71. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Stefán Stefánsson:

Það verður ekki annað sjeð af nál. háttv. allsherjarnefndar en að nú standi það eitt í vegi fyrir framgangi þessa máls, að uppfylt sje skilyrðið, sem sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu setti fyrir því, að Siglufjörður yrði skilinn frá sýslunni, sem sje það, að sýslumaður Eyjafjarðarsýslu misti einskis í af tekjum sínum. Og nú stendur í nál.: „Sá allsherjarnefnd sjer þá (1918) ekki fært að mæla með því frv., eins og það lá fyrir af hendi flutningsmanna, með því að skilyrðum þeim, sem sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu setti um það, að núverandi sýslumaður misti einskis í af tekjum sínum sakir skiftingar sýslunnar.“ (E. A.: En „sýsla“ merkir þar „lögsagnarumdæmi“). Já, vel að merkja, sýslumaður Eyfirðinga er þar enn dómari í saka- og einkamálun, og eiginlega innheimtumaður, þótt lögreglustjórinn á Siglufirði annist þau störf á hans ábyrgð.

Þessa sömu ástæðu setur nefndin ennfyrir sig. Af því verður að álykta, að allsherjarnefnd álíti, að sýslunefnd hafi haft fult vald til að setja þetta skilyrði fyrir skiftingunni. En það verður að teljast í það minsta mikið efamál, hvort löggjafarvaldinu sje skylt að fara eftir þessum skilyrðum sýslunefndar. Jeg verð að líta svo á, að það hafi aldrei verið skyldugt til þess og geti aldrei orðið það. Þar af leiðandi virðist mjer, að hvorki sýslumaðurinn sem slíkur eða sýslunefnd hafi nokkra heimild til að setja slíkt skilyrði sem gildandi kröfu til hins opinbera. En á þessu hefir hv. allsherjarnefnd bygt, og get jeg ekki betur sjeð en að sá grundvöllur sje næsta óábyggilegur og því eiginlega tylliástæða ein.

En hitt er annað mál, hvort ekki er sanngjarnt, að sýslumanninum sje bætt upp að nokkru rýrnun á aukatekjunum, sem kann að leiða af breytingunni eða samþykt frv. En nú hagar svo sjerstaklega til, hvað þetta snertir, að sýslumaður getur valið um, hvort hann vill halda sínum föstu, núverandi launum, ásamt öllum þeim aukatekjum, sem sýslan gefur af sjer, að Siglufirði fráskildum, eða ganga inn í þau verulega hækkuðu laun, sem ákveðin eru í launalögum þeim, sem tvímælalaust verða nú samþ. af þinginu, eða með öðrum orðum — eins og nú lítur út fyrir, og sennilega má ganga út frá — fá 9500 kr. laun árlega, auk skrifstofukostnaðar Sýnist mjer löggjafarvaldið sýna honum fullan sóma, þótt það bjóði honum eitt af þessu tvennu, sýslutekjurnar, ásamt þeim launakjörum, er hann hefir nú, eða þau hækkuðu laun, er nú bjóðast.

Og þau launalög, sem við ætlum embættismönnunum eftirleiðis að búa við, verð jeg að segja að sjeu fullsæmileg og boðleg. Þannig horfir málið við fyrir mjer. Þá vil jeg og segja, að ætli löggjafarvaldið sjer að útfæra það í „praxis“, sem hv. allsherjarnefnd leggur til, að embættismönnum skuli veitt uppbót, ef umdæmum þeirra væri breytt, eða af þeim sniðinn sá hluti, sem óeðlilegt og óviðeigandi mætti telja að fylgdi, þá er það ný braut, sem ekki hefir verið farin hingað til. Eða hvað mætti ekki færa mörg dæmi þess, að umdæmum, t. d. læknishjeruðum, hafi verið skift án þess að viðkomandi embættismaður hafi verið að spurður, eða hafi gert eða getað gert nokkra kröfu til uppbótar fyrir rýrnun laukatekna, enda mundi slíkt afaróheppilegt og jafnvel ógerlegt. Þessi deild var t. d. fyrir skömmu að skifta Hróarstungulæknishjeraði, og var þá ekki minst á, að læknirinn fengi sjerstaka uppbót, þótt stór hluti hjeraðs hans væri af honum tekinn. Hefði þó mátt vænta þess, að allsherjarnefndin, sem einnig hafði það mál til meðferðar, hefði lagt til, að lækninum væri bættur tekjumissirinn, ef hún hefði viljað vera sjálfri sjer samkvæm. En það gerði hún ekki. Fyrir nokkrum árum var og skift öðru læknishjeraði á Austurlandi; það var þegar Norðfjörður var gerður að sjerstöku hjeraði. Var þá þessari stefnu fylgt? Nei, það hefir sennilega engum þá dottið í hug. Það kom heldur engin krafa, enda mundi henni ekki hafa verið sint. Þannig lítur þá þessi grundvöllur út, sem nefndin byggir á. Jeg get heldur ekki sjeð, að frv., eins og nú hagar, sje að neinu leyti órjettmætt eða ósanngjarnt gagnvart sýslumanni Eyfirðinga, þar sem hann getur valið um stórum aukin laun samkvæmt nýju launalögunum, eða halda sínum núverandi launum ásamt öllum þeim aukatekjum, sem Eyjafjarðarsýsla veitir, að undanskildum Siglufirði. Enda ekki óhugsandi, að honum yrði greiddur mestur hluti þess fjár, er telja mætti að hann annars mundi hafa fengið sjer að kostnaðarlausu af tollheimtu þar. Og viðvíkjandi hinu opinbera gæti þetta fyrirkomulag verið hreinn tekjuauki. Eftir þeim tolli, sem nú hvílir á síldinni, og eftir því, sem aflast hefir á góðum aflaárum, þá yrði gróði að þessu, þótt dálítið væru bætt upp laun lögreglustjórans og hann gerður að bæjarfógeta.

Þá er því lýst yfir í nefndarálitinu, að Siglfirðingar hafi látið sjer þetta lynda fyrst um sinn. En hvað er nú eiginlega sagt með þessu, að þeir „ljetu sjer þetta lynda fyrst um sinn“. Það gefur svo sem ekki til kynna neina ánægju, það er öðru nær því að í þessu felst gremja yfir því, að þeir verði að láta sjer þessi úrslit lynda. En hvað kemur nú til, að þessu var lýst yfir? Jeg hygg, að til þess hafi legið sú ástæða, að þá var aldarafmæli Siglufjarðarkauptúns, og þess vegna þótti þó betra en ekkert að fá viðurkenningu bæjarrjettindanna að afmælisgjöf. Og það er þá líka eins og þeim hafi fundist það benda fremur í þá átt, að annað meira fengist á næstu árum. Þannig er nú þessari yfirlýsingu varið. — Annars mætti líta svo á, að ætti nú að eyða þessu máli fyrir Siglufirði, þá hafi þingið fyrirfram ákveðið að fella öll mál, er miða til hagsbóta eða framfara fyrir Siglufjörð, og hafa hann þannig að hálfgerðu olnbogabarni. Nýlega er búið að vísa frá máli, sem Siglfirðingum hlaut að vera mikið áhugamál, og annað er á leiðinni frá sjávarútvegsnefnd, sem jeg býst við — eftir skoðun nefndarmanna í samtali við mig að dæma, að hún leggi til að verði moldað á eitthvað sviplíkan máta, og svo er þá þetta mál, og er sjáanlegt, ef nefndin má ráða, að þess bíða lík forlög. Hverjum er nú gerður þessi órjettur? Það er bæjarfjelag, sem borgar líklega mest í landssjóð af öllum bæjarfjelögum, að undantekinni Reykjavík einni. Nei, mjer finst ekki óeðlilegt, þótt Siglfirðingar þykist illa leiknir, ef svo á að fara með hvert málið af öðru, sem nú er til stofnað.