15.09.1919
Neðri deild: 64. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

71. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg skal reyna að vera ekki langorður, enda ætla jeg mjer ekki að fara að kíta mikið við hv. fyrverandi frsm. og flm. þessa máls (St. St.). Eins og vant er, leggur hann mikið kapp á þau mál, er snerta kjördæmi hans, og skal jeg ekki lasta hann fyrir það, en jeg skil ekki í því mikla kappi, sem hann leggur á þetta mál, sjerstaklega þar sem Siglufjörður hefir fengið skilnað við sýslufjelagið fyrir einu ári og sjerstakan lögreglustjóra. Hvað þeir eiga við með „fyrst um sinn“, skal jeg ekki um segja, en mjer fyndist það ekki langt, þótt þeir yrðu að bíða 2 ár eftir bæjarfógetanum. — Þó að nú hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) telji það vel sæmandi að taka 2500 kr. af sýslumanni Eyfirðinga, og að hann taki laun sín eftir nýju launalögunum, þá er ekki víst, að sýslumaðurinn sjálfur telji það vel sæmilegt, og enginn getur knúð hann til þess að taka launin eftir nýju launalögunum. Hitt skal jeg ekki segja, hvort hann gerir það eða ekki, en ef hann gerir það ekki, álítur nefndin, að stjórnin verði að semja við hann um, hversu mikla uppbót hann skuli fá. — Samanburður sá, sem hv. þm. (St. St.) gerði á þessu og skiftingu læknahjeraðanna, er ekki góður. Mjer er ekki kunnugt um, að læknar hafi krafist uppbótar, þótt hjeraði þeirra hafi verið skift; miklu fremur er mjer kunnugt um, að þeir hafi tekið skiftingunni fegins hendi. En í fyrra kom fyrir allsherjarnefnd álit bæði frá sýslunefnd og sýslumanni, og þar gerði sýslumaður sig líklegan til að gera þær kröfur, er jeg nefndi. Og það er enginn efi, að það er mjög hart gagnvart þessum embættismanni, sem og öðrum, að skifta embætti þeirra gegn vilja þeirra, ef skiftingin hefir verulega tekjurýrnun í för með sjer, án þess að þeir fái uppbót. Við getum tekið t. d. annað embætti, svo sem Strandasýslu. Þar eru nú að rísa upp síldarver á sumum fjörðunum, og geta þau orðið aðaltekjulindir sýslumannsins, er fram líða stundir og ef hann sæti eftir gömlu launalögunum. Svo vilja þessi síldarver fara að verða sjálfstæð og vilja verða sjerstök lögsagnarumdæmi. Þá missir auðvitað sýslumaðurinn mikils í tekjum, og það jafnvel feitasta bitann. Býst jeg við, að honum þætti þetta ranglátt, ef engar bætur kæmu fyrir, og svo mundi fleirum þykja. — Þá virðist hv. þm. (St. St.) ekki vita það, og má það heita merkilegt, að það er alls ekki lögreglustjórinn, sem innheimtir tollana fyrir sýslumanninn, á Siglufirði, heldur er það sjerstakur maður. Sömuleiðis er það rangt hjá hv. þm. (St. St.), að þessi innheimtulaun sjeu tekin á „þurru landi“, eins og hann komst að orði. Innheimtulaunin eru bæði borgun fyrir innheimtuna og ábyrgðina, sem sýslumaðurinn ber á því, að tollarnir gjaldist. — Jeg held, að það sje ekki fleira, sem jeg þarf að svara hv. þm. (St. St.). Geri jeg ekki heldur ráð fyrir, að langar ræður skifti mjög skoðunum manna, að svo komnu máli.