09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

119. mál, vegamál

Magnús Pjetursson:

Jeg bað mjer ekki hljóðs til þess að gera athugasemdir við till. nefndarinnar, heldur ætlaði jeg að skjóta fram einu atriði til athugunar fyrir hæstv. stjórn. Þannig er mál með vexti, að jeg hafði meðferðis áskorun frá þingmálafundi um, að tekinn yrði í þjóðvegatölu einn vegarkafli á Vesturlandi. En er jeg heyrði, að fleiri háttv. þm. hefðu hið sama í hyggju hvað aðrar leiðir snertir, þá hætti jeg við það, þegar jeg frjetti, að hv. samgöngumálanefnd ætlaði að leggja til að farin yrði sú leið, sem hv. deild nú sjer að hún leggur til. Enda mundi nefndin sjálfsagt hafa tekið því líkt og öðrum málaleitunum í þessu efni. Jeg sá því að ekki mundi til neins að bera þetta fram hjer í hv. deild, en vildi að eins nú óska þess, að það verði rannsakað, hvort ekki teldist sjálfsagt að taka í tölu þjóðvega leiðina frá Bitru um Steingrímsfjarðarheiði til Langadalsbotns í Norður- Ísafjarðarsýslu.

Jeg vænti þess, að hv. nefnd leggist ekki á móti, að þetta verði athugað ásamt öðru samskonar. Jeg held, að þessi vegarkafli komi engu síður til greina en sumir aðrir, þar sem hann er sameiginlegur fyrir tvo landshluta, sem hann liggur á milli. Auk þess má hvort sem er gera ráð fyrir, að fleira verði rannsakað en það, sem nefndin nú hefir minst á. Jeg vildi æskja þess, að hv. frsm. (G. Sv.) lýsi því yfir, að hann sje þessu ekki mótfallinn. Að vísu býst jeg við, að vegamálastjóri sje allkunnugur þessum vegi, sem hjer um ræðir. Vil jeg því leggja ríka áherslu á, að gaumgæfilega sje rannsakað þetta nauðsynjamál Vesturlands, enda hefir sýslunefnd Strandasýslu krafist þess. Þykist jeg örugt mega treysta því, að þessi rannsókn leiði í ljós, að vegur þessi verði á næsta þingi tekinn í tölu þjóðvega. — Vil jeg ekki tefja hv. deild á að lýsa nauðsyninni, með því málinu hvort sem er ekki verður ráðið til úrslita á annan hátt á þessu þingi.