09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

119. mál, vegamál

Pjetur Ottesen:

Áður en jeg sný mjer að tillögunni, get jeg ekki leitt hjá mjer að geta þess, að mjer þykir töluvert ógeðfelt, að enginn úr stjórninni skuli vera viðstaddur þessar umræður, þar sem verið er að skora á stjórnina að gera till. um mikilsvert mál, sem snertir mjög alla þjóðina.

Á undanförnum þingum hafa komið fram áskoranir, sem gengið hafa í þessa átt. Þess vegna má ætla, að þingsál. á þgskj. 278 eigi við nægilega sterk rök að styðjast. Það hefir víst verið skorað tvisvar eða þrisvar á stjórnina að taka þetta mál til íhugunar, og þá sjerstaklega að því er snertir viðhald flutningabrauta, en ekkert orðið af framkvæmd. Síðan vegalögin voru samþykt 1907 hefir mikil breyting orðið á samgöngnþörfum víðs vegar um land. Í Borgarnesi t. d. hefir risið upp allmikill kaupstaður og samgöngur mjög vaxið milli Norður- Vestur- og Suðurlands um brautirnar, sem að kaupstaðnum liggja. Og nú er allur póstur, sem á að fara vestur og norður um land, fluttur sjóleiðis úr Reykjavík til Borgarness. Borgarnes er því orðið nokkurskonar miðstöð samgangna milli Norður- og Vesturlands og Reykjavíkur. Enn fremur má minna á það, að því er til verslunarinnar kemur, að nálega öll Hnappadalssýsla rekur nú orðið verslun í Borgarnesi. Þessi mikla umferð um viðkomandi vegi leiðir til þess, að viðhald á þeim verður miklu dýrara en áður. Og viðhaldið á vegunum verður því tilfinnanlegra, þar sem vegirnir eru yfirleitt illa gerðir í byrjun; sjerstaklega er alt viðhald á rennum og trjebrúm sem eyðileggjast á tiltölulega skömmum tíma, mjög dýrt og eru nú orðin svo mikil brögð að þessu, að viðkomandi sýslur rísa trauðla undir viðhaldinu auk þess sem það heftir nauðsynlegar framkvæmdir á öðrum sviðum.

Viðhald flutningabrautarinnar frá Rvík austur yfir Hellisheiði til Ingólsfjalls er kostuð af ríkissjóði. Um Borgarfjarðarbrautina stendur líkt á og þennan veg. Það er víst mjóst á mununum um umferð á þessum brautum, og þar sem svo stendur á, að utanhjeraðsmenn nota vegina hátt upp í það eins mikið og menn þeirra hjeraða, sem viðhaldið hvílir á, þá verður því ekki neitað, að öll sanngirni mælir með því, að ríkissjóður kosti viðhaldið á slíkum stöðum. Mjer virðist þess vegna, að öll sanngirni mæli með því, að þetta sje að minsta kosti rannsakað með öðrum liðum till.

Jeg fæ ekki sjeð, hverjar ástæður nefndin hefir getað haft til að vera því mótfallin, að þetta væri athugað, þar sem hún hefir yfirleitt tekið vel í málið. Og þótt fyrir okkur hafi vakað, að þetta væri athugað, þá er ekki þar með sagt, að við ætlumst til, að viðhaldi flutningabrauta yrði í einum rykk alstaðar ljett af sýslunum. Við gerðum ráð fyrir að vegamálastjóri athugaði málið og kæmi með till. um, að flutningabrautum yrði þar ljett af sýslunum, sem mest nauðsyn krefði, og þá smám saman.

Enn fremur skal jeg minnast á það í þessu sambandi, að vel gæti komið til mála, að sú breyting yrði gerð á vegalögum, að hjeruðin legðu eitthvað af mörkum fram til lagningar flutningabrauta í upphafi, en landssjóður kostaði síðan viðhald þeirra. Með því fyrirkomulagi ætti að fást meiri trygging fyrir, að vegirnir væru betur gerðir, og þörfin á þeim kæmi fram í því, hversu menn vildu leggja mikið af mörkum fram.