09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

119. mál, vegamál

Jón Jónsson:

Jeg hjó svo eftir, að 1. þm. Árn. (S. S.) vildi leggja sjerstakan skilning í þessa till. Þetta þótti mjer kynlegt, þar sem jeg sje ekkert rjettlæti í því, að viðhaldsskyldan sje miðuð við vissar flutningabrautir eftir tillögunni.

Jeg vildi benda hv. þingdeild á það, að vert væri að athuga vel Fagradalsflutningabrautina í þessu sambandi. Hún er ein af þeim flutningabrautum, sem við er haldið af sýslufjelögum. Þessi flutningabraut liggur að miklu leyti í óbygðum. Þar af leiðir, að viðhaldið á henni er miklu dýrara en ella mundi. Í óbygðunum er snjókoma og vatnsmagn meira en niðri í bygðum, en það spillir mjög vegunum. Ef landssjóður ætti að taka að sjer viðhald á nokkrum brautum af sýslufjelögum, þá er það vissulega mestur hluti Fagradalsbrautar, sem í óbygðum liggur.

Þetta vildi jeg benda á, til þess að vekja athygli manna á því, að sá skilningur getur ekki verið rjettur, að till. sje bundin við Borgarfjörð eða Suðurlandsundirlendið. Ef sá skilningur felst í till., vildi jeg mótmæla honum eindregið.

Annars geri jeg þetta ekki að kappsmáli. Jeg vildi að eins benda á, að sá skilningur er rangur, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) virðist hafa lagt í till., til leiðbeiningar fyrir stjórnina. Allar ástæður verður að athuga með sanngirni, áður en breyting er gerð.