09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

119. mál, vegamál

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg stend upp í síðasta sinni, í þeirri von að aðrir ræðumenn hafi lokið sjer af.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) fór „inn á þá braut“, að viðhaldi á þessari allsherjarbraut austur yrði ljett með öllu af sýslunni. Háttv. þm. Borgf. (P. O.) tók í líkan streng, og var þó auðheyrt að hann átti þar að eins við flutningabrautina, sem liggur um hans hjerað. (P. O.: Það er ekki rjett). Þm. mun að vísu hafa komist svo langt að vilja lofa flutningabrautinni austur um fjall að hanga með.

En viðaukatill. háttv. flm. er miðuð jafnt við allar flutningabrautir. En þó að till. væri athuguð, kæmi þetta vafalaust ekki í framkvæmdinni niður á öllum stöðum.

Annað er athugavert við till. háttv. þm. Borgf. og Mýra. Það er sú hugsun, sem liggur á bak við till., sem er algerlega andstæð þeirri hugsun, er lá til grundvallar hjá samvinnunefnd samgöngumála. Í till. þm. Borgf. og Mýra er það talið sjálfsagt, að viðhaldi flutningabrauta sje ljett af sýslusjóðum, sbr. „hvort eigi sje rjettast, að viðhaldi flutningabrauta.“

Ef tillögumennirnir hefðu verið hlutlausir, mundu þeir hafa orðað till. sína á þá leið, „hvort rjett sje “ Frá þeirra sjónarmiði er það þess vegna rjettast, að viðhaldinu sje ljett af sýslunum. Þeir ætlast þess vegna ekki til, að rannsókn sje gerð í þessum efnum, er leiði til annarar niðurstöðu.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) gaf það í skyn, að vafasamt mundi, að meiri hluti nefndarinnar mundi vera viðaukatill. mótfallinn. En þetta er ekki rjett. Jeg veit, að samþ. var með miklum meiri hluta atkvæða að mæla gegn henni, og þar sem enginn nefndarmanna hefir komið fram með nein ágreiningsatriði, er öll nefndin bundin við samþyktina, nema einhverjir skerist úr leik. Og skal jeg geta þess, þm. til huggunar, að einungis einn nefndarmanna, hinn landskjörni þm. úr Borgarfirði (H. Sn.). var ekki viðstaddur, þegar till. var samþykt.

Að lyktum vil jeg geta þess, að það er ekki rjett hjá háttv. þm. Borgf (P. O.), að sama máli sje að gegna um veginn úr Borgarnesi sem um veginn úr Reykjavík austur yfir fjall. Jeg álít, að það sje alt öðru máli að gegna um veginn austur yfir fjall. Þessi vegur liggur ekki eingöngu um Árnessýslu. Hann liggur einnig um fjalllendi og óbygðir, og er algerlega óleyfilegt að leggja viðhaldskostnað þessa hluta vegarins á sýsluna, sem sje austur yfir Hellisheiði. Umferðin um þessa braut er ekki heldur saman berandi við umferðina um Mýra- og Borgarfjarðarbrautina. (P. O.: Hv þm. þekkir ekki umferðina um þessar brautir). Jú, jeg þekki hana svo vel, að jeg veit, að hún stenst engan samanburð við umferðina um Hellisheiðarbrautina. Þm. (P. O.) talaði í þessu sambandi um fordæmi. En hann hefir ekki athugað, að um veginn austur yfir fjall er alt öðru máli að gegna en flutningabrautir, sem liggja niðri í bygðum. (P. O. : Jeg hefi fært þetta í tal við vegamálastjóra). Þm. (P. O.) hefir þá ekki skilið vegamálastjóra rjett.

Það er mikill munur á því, hvort ríkissjóður annast viðhald vega gegn því, að sýslurnar leggi dálítið meira til vegagerðanna, eða hinu, að ríkissjóður annist að mestu leyti vegagerðina í öndverðu, og sýslurnar sjái síðan um viðhaldið. Þetta fyrirkomulag mundi þykja hentugt fyrir þau hjeruð, sem vegirnir lægju að. En viðhaldið er dýrt, ef það á að verða í nokkru lagi. Hins vegar er þess að gæta, að hagsmunir af brautunum eru afarmiklir fyrir þau hjeruð, sem þær liggja að. Og hætt er við, að þetta fyrirkomulag gæti skapað ranglæti gagnvart ýmsum hjeruðum. Þar að auki er það í ósamræmi við reglur þær, sem gilda um önnur fyrirtæki ríkissjóðs.

Aðalatriðið fyrir þjóðfjelagið er að koma fyrirtækinu á. Síðan verður að miða viðhaldið við reglur þær, sem gilda þar um, svo sem nú um viðhald vega. Það virðist vera sanngjarnt, að þeir haldi vegunum við, sem njóta þeirra. Og það mundi leiða af viðhaldsskyldunni, að íbúar hjeraðanna ljetu sjer annara um það, hvernig vegirnir væru farnir.

Jeg fæ ekki sjeð, að hjer sje þörf á þessari viðaukatill. Þetta er í sjálfu sjer einfalt fjárhagsatriði. Hjer þarf ekki um að ræða rannsókn á því, hvort taka skuli þessa eða hina flutningabraut. Vegamálastjóri á að sjálfsögðu að fjalla um málið. Og þeir, sem hefðu sjerstakan áhuga á því, gætu beint til hans athugasemdum sínum um það og beðið hann að taka þær til íhugunar. Annars er þetta eins og hvert annað einfalt vegamál. Að sjálfsögðu yrði látið sitja við úrskurð vegamálastjóra, nema landsstjórn eða Alþingi vildi taka annan upp. Reyndar gæti komið til mála, að einstakar málaleitanir kæmu fram á Alþingi og þá með eða án meðmæla vegamálastjóra; en með þær yrði þá að fara sem fjárveitingaratriði.

Þessum augum lítur nefndin á málið. Hana skiftir auðvitað ekki miklu, hvort deildin vill fylgja henni eða ekki.