29.07.1919
Efri deild: 17. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

92. mál, Landsbanki Íslands, útibú í Stykkishólmi

Flm. (Halldór Steinsson):

Það er orðin ríkjandi skoðun bæði utan þings og innan, að koma þurfi bankakerfi landsins í betra horf en verið hefir; sjerstaklega að það þurfi að fjölga útibúunum. Það eru auðvitað altaf skiftar skoðanir um, hvar þörfin sje ríkust, en þó eru sum kauptún svo sett, að engum getur blandast hugur um, að þar sje brýn nauðsyn fyrir útibú.

Alla leiðina frá Reykjavík til Ísafjarðar er ekki eitt einasta útibú, og liggur í augum uppi, að á miklum kafla af þessu svæði er mjög örðugt að ná til banka, annaðhvort á Ísafirði eða í Reykjavík. Hjeruðin, sem hjer er um að ræða, eru öll Snæfellsness- og Hnappadalssýsla, öll Dalasýsla, mikill hluti Barðastrandarsýslu og nokkur hluti Strandasýslu. Í þessum hjeruðum búa um eða yfir 8 þús. manns, eða hjer um bil einn tíundi hluti allra íbúa landsins. Ef útibú væri í Stykkishólmi mundu íbúar þessara hjeraða að mestu leyti hafa sín bankaviðskifti þar, og þegar tekið er tillit til, um hve mikinn mannfjölda hjer er að ræða, get jeg ekki skilið annað en að krafa þessi verði talin rjettmæt. Ímynda jeg mjer að þetta útibú mundi þola samanburð við hvert útibú á landinu utan stærstu kaupstaðanna.

Þótt mál þetta sje svo augljóst að ekki þurfi skýringar við, vil jeg samt leggja til, að því verði vísað til fjárhagsnefndar, þar eð venja er til, að slík mál sem þetta sjeu sett í nefnd.