29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2218 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

89. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Þetta mál, sem till. fjallar um, hefir áður verið á dagskrá hjer á þingi. Á þingi 1916–1917 var borin fram samskonar till. Á þingi 1917 var borin fram fyrirspurn til stjórnarinnar um, hver afskifti hún hefði haft til framkvæmda þingsál. frá 1916–1917. Það var ekki við því að búast, að stjórnin gæti komið af stað neinum verulegum framkvæmdum í þessa átt á jafnskömmum tíma. En hins vegar hefði mátt búast við, að þetta þing fengi eitthvað frekara að vita um aðgerðir stjórnarinnar, hvort hún hefði ekki sjeð sjer fært að hrinda málinu eitthvað til vegar og þá borið till. sínar fram í frumvarpsformi. En þetta hefir ekki verið gert, og því mætti ætla, að stjórnin hafi látið undir höfuð leggjast að verða við áskorun þingsins 1916–1917. Ef svo er, tel jeg ekki vanþörf á að endurnýja þessa áskorun. Jeg vona að heyra skýrslu frá stjórninni um, hvort hún hefir nokkuð gert í málinu.

En þó að stjórnin hefði ekki sjeð sjer fært að greiða neitt fyrir máli þessu, þá er það þó alþjóðarálit, að brýn nauðsyn beri til, að löggjafarvaldið geri það, sem í þess valdi stendur, til þess að ljetta undir baráttuna með landbúnaðinum, og það því fremur, sem þessi barátta er farin að verða ærið hörð.

Bankarnir hafa hingað til sint meira sjávarútveginum en landbúnaðinum, og er það síst að lasta. Sú hjálp hefir orðið mikil lyftistöng fyrir þjóðfjelagið.

En hins er ekki að dyljast, að landbúnaðurinn þarf meiri aðstoð en hann hefir fengið hingað til. Það er mjög eðlilegt, að bankarnir vilji fremur hlaupa undir bagga með sjávarútveginum heldur en landbúnaðinum. Sjávarútvegurinn gefur fljótar arð í aðra hönd og getur fljótar goldið þau lán, sem veitt eru til hans. Landbúnaðurinn þarf aftur á móti lán til langs tíma og með hentugum kjörum. Og þrátt fyrir þessa banka, sem hjer eru, er landbúnaðurinn litlu betur settur en áður.

Af þessum ástæðum er þingsál. sú fram borin, er hjer liggur fyrir. Og hún er samkvæm óskum margra þingmálafunda og síðast áskorun landbúnaðarþingsins, sem skoraði á stjórnina að taka þetta mál að sjer.

Annars er mál þetta mjög gamalt á þingi. Á Alþingi 1883 flutti stjórnin frv. til laga um lánsstofnun fyrir landbúnaðinn. Margir merkir þm. voru málinn fylgjandi, og Hilmar Finsen var stuðningsmaður þess. Þetta sýnir, að þörfin á slíkri lánsstofnun er ærið gömul.

Mjer eða öðrum þm. var ókleift að bera fram frv. um þetta mál, því að til þess þarf sjerfræðinga í bankamálum. En slíkir menn eru hjer í bænum, sem stjórnin á sjálfsagt kost á að fá sjer til aðstoðar. Og hún ætti að telja það vera skyldu sína að verða sem fyrst við þessum margítrekuðu óskum þingsins.

Mig brestur þekkingu til að gera nánar grein fyrir fyrirkomulagi slíkrar lánsstofnunar. En stjórnin má ekki láta þann þröskuld standa í veginum fyrir nauðsynlegum undirbúningi málsins.

Jeg býst að lokum við að heyra skýrslu og álit atvinnumálaráðherrans á málinu og hvað stjórnin telur sjer fært að vinna að því framvegis.

Að endingu vil jeg óska, að málinu sje vísað til landbúnaðarnefndar og þessari umr. frestað.