29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

89. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Bjarni Jónsson:

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að telja rök til þess, að landbúnaðurinn þyrfti betri lánskjör en hann hefir hingað til átt kost á. Allir viðurkenna, að honum sje ókleift að ráðast í nokkrar verulegar jarðabætur með slíkum lánskjörum. Afborgunarskilmálarnir eru svo óhagkvæmir og vextirnir svo háir, að þeir geta sett bóndann á höfuðið. Þetta þarf ekki að reikna. Það vita allir, að lán til túnasljettu borgar sig ekki þegar þarf að endurgreiða það á 10–20 árum. Og veðdeildarlán fást ekki, nema með okurkjörum.

Það er dálítið kynlegt, að allan þennan tíma, síðan 1883, hafa menn haft vakandi auga og verið ljós þörfin á hagkvæmari lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, en hverjar eru svo framkvæmdirnar?

Jeg man, að þegar jeg kom fyrst á þing, árið 1909, urðu umræður um málið. Og þegar jeg var erlendis í þjónustu landsins, átti jeg tal um þetta mál við sænskan bankamann, Knut Vallenberg, sem síðar varð ráðherra. Hann lofaði mjer, að jeg mætti bera þau boð til stjórnarinnar, að hann væri fús til að lesa yfir alla íslenska bankalöggjöf og reyna að finna ráð til þess, hvernig best mætti haga slíkri lánsstofnun. Jeg skrifaði stjórninni um þetta. Síðan eru nú liðin 10 ár, og engum hefir enn komið til hugar að hagnýta sjer tilboð þessa manns, sem er talinn langbesti bankamaður á öllum Norðurlöndum og hefir útvegað Svíum öll þeirra lán um 30 ára skeið. (G. Sv.: Það er ekki víst, að ráð hans hefðu komið að gagni hjer á landi.) Jeg veit ekki, af hverju stjórnin hefir ekki sint tilboði hans.

Menn hafa tilfært það sem ástæðu með framkvæmdarleysi sínu í þessu máli, að hjer vantaði sjerfræðinga, sem hægt væri að snúa sjer til. Jeg býst við, að seint verði að seilast til lokunnar yfir þá vanþekkingarhurð. Þess má geta, að hjer er þó ekki örsneitt um slíka menn. Einn þeirra Ólafur Björnsson, er nú að vísu dáinn. En þá má nefna Þorstein Þorsteinsson, hagstofustjóra, Georg Ólafsson og Hjeðin Valdemarsson, sem allir eru sjerfræðingar á þessu sviði. Fjórði maðurinn er Jón Dúason, sem nýlega hefir lokið prófi í hagfræði, duglegur maður og gáfaður. Hjer er því um 4 menn að velja, sem numið hafa bankafræði, og 3 þeirra haft hana fyrir aðalnámsgrein. En þetta eru alt ungir menn og geta ekki spunnið úr sjer neinar tillögur um þetta efni rannsóknarlaust. En ef þeir fengju tækifæri til þess að fara til annara landa og kynnast slíkum stofnunum, sem hjer um ræðir, mundu þeir efalaust koma með góðar tillögur.

Jeg skal ekki áfellast neinn fyrir þann drátt, sem orðið hefir á málinu. Jeg veit ekki, hvort hann er nokkrum að kenna sjerstaklega. Hann er sprottinn af þessum svefni, sem hvílir yfir þeim, sem fara með mál þjóðarinnar. Við erum allir syfjaðir. Og ef einhver vill eitthvað áfram, þá er sagt, að hann vilji auðga sjálfan sig með því að komast á landssjóðinn. Ef á að koma með till., sem landbúnaðurinn gæti grætt á miljónir, þarf eitthvað að leggja í sölurnar fyrir slíka till. Hún fæst ekki fyrir ekkert. Jeg og aðrir, sem viljum leggja eitthvað í kostnað atvinnuvegum landsins til þrifnaðar, erum í raun og veru sparsömustu mennirnir.