29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

89. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla að eins að benda á, að hjer eru til ýmsir sjóðir, eign landsins, sem ekki eru ætlaðir til eyðslu. Þar til má nefna viðlagasjóðinn, sem nú er orðinn rúm 1½ miljón króna; þá er ræktunarsjóðurinn um 770 þúsund krónur, og kirkjujarðasjóðurinn, um 815 þúsund krónur. Ef það er fastur ásetningur þings og þjóðar að hafa þessa sjóði eigi fyrir eyðslufje þá er ekki útilokað að hagnýta þá til þess að koma fótun, undir þessa lánsstofnun fyrir landbúnaðinn. Jeg veit ekki, hvort allir hv. þingdeildarmenn hafa tekið eftir því, að í fjárlagafrv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir, að eftirleiðis verði haft sjerstakt reikningshald fyrir viðlagasjóð og hann fullkomlega greindur frá ríkissjóði. Hann er að miklu leyti úti í lánum, og má búast við, að af honum og ræktunarsjóðnum, sem líkt stendur á með, muni koma inn á ári um ½ miljón króna í vexti og afborganir. Væru þessir sjóðir teknir sem undirstaða undir lánsstofnuninni, væri það mikill styrkur til að byggja ofan á.

Ræktunarsjóðurinn er einmitt stofnaður í líku augnamiði og lánsstofnun þessi, en gallinn er þar sá, að lánin úr honum eru veitt til of skamms tíma og hinar einstöku lánsupphæðir svo lágar, að þær koma engan veginn að fullu haldi.

Aðalatriðið er þetta að vjer eigum til töluverða sjóði, sem jeg sje ekki að verði betur varið til annars en að koma fótum undir hina fyrirhuguðu lánsstofnun. Jeg veit, að þeir eru að vísu helst til litlir, en geta orðið vísir til annars meira. Á þessu vildi jeg vekja athygli nefndar þeirrar, sem gera má ráð fyrir að kosin verði í málinu, og vona jeg, að hún taki það til íhugunar.

Það má og ef til vill nota fleiri sjóði í þessu augnamiði, t. d. varasjóð veðdeildanna og bjargráðasjóðinn, þótt að vísu sje tvísýnt, hve heppilegt sje að festa hann þannig.

Hins vegar má gera ráð fyrir, að ræktunarsjóðurinn og kirkjujarðasjóðurinn muni vaxa mjög næstu árin, því að líklega muni ekki langt um líða, þangað til flestallar þjóðjarðir og kirkjujarðir verða seldar.