23.08.1919
Efri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

120. mál, eyðing refa

Guðmundur Ólafsson:

Mjer heyrðist það á andanum í orðum hv. 4. landsk. þm. (G. G.), að hann væri í aðra röndina að mæla á móti þingsál., af því að hún væri óþörf. Þetta er mjer óskiljanlegt. Þingsál. er til bóta, og auðvitað komin fram af því einu, að borgun sú, er refaskyttum er ákveðin í reglugerðum sýslnanna, er orðin langt á eftir tímanum, og því full þörf á því að samræma þóknunina fyrir þetta starf við annað kaupgjald. Hið sama á sjer stað um verðlaun til manna, er vinna refi annarsstaðar en við greni. Þetta er hægt að gera, hvað svo sem verður um refaeyðingu Nd. og hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á því máli.