26.08.1919
Efri deild: 40. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

122. mál, bætur vegna tjóns af Kötlugosinu

Eggert Pálsson:

Jeg tel engan vafa á því, að deildin muni fallast á till. þessa. En jeg vil vekja athygli á einu atriði í sambandi við 2. lið till., og það er spurningin um það, hvað langt sá liður gangi, með öðrum orðum hvað vítt menn hafa hugsað sjer að þetta öskusvæði nái. Mjer er ekki kunnugt um það, hvað háttv. Nd. hefir hugsað sjer í þessu efni, en jeg vil láta þess getið, að öskusvæðið tekur yfir fleiri hjeruð en Skaftafellssýslu; bæði í Landmannahreppi, Upp-Rangárvöllum og Innhlíðinni (c: innra hluta Fljótshlíðar) hefir orðið feiknamikill skaði af öskufalli. Í Landmannahreppi hefir skaðinn orðið svo mikill, að þar eru margar jarðir með öllu óbyggilegar fyrst um sinn, þótt búendur af þeirri sjerstöku trygð, sem einkennir Landmenn og óvíða mun koma eins vel fram, sitji áfram á jörðunum. Í þessum sveitum, Landmannahreppi og efra hluta Rangárvallanna, hagar svo til, að jarðir eru sendnar mjög, svo að þegar aska fellur ofan á, hlýtur allur gróður að kyrkjast. Öðru máli gegnir um mýrlendi, því að þar vinnur askan ekki til muna á. Svipuðu máli gegnir um Innhlíðina að nokkru leyti. Þar er jörð að vísu ekki sendin, en harðlend mjög.

Á þessu vildi jeg hafa vakið eftirtekt, áður en till. gengur fram, að þörfin fyrir hjálp er hjer mjög brýn í þessum sveitum, er jeg hefi nú nefnt, svo framarlega sem halda á jörðunum við.