15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

123. mál, landsreikningarnir 1916 og 1917

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg verð ekki margorður. Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) spurði, hvernig á því stæði, að fjeð væri ekki látið liggja í landssjóði þangað til Landsbókasafnið notaði peningana. Það er að eins af praktiskum ástæðum og engu öðru. Fjenu hefir verið ávísað í slumpum, en svo hafa forstöðumenn stofnananna haft sparisjóðsbók og lagt inn í hana og tekið út eftir þörfum. Og þetta er auðvitað sjálfsögð aðferð, því það er óþarfa fyrirhöfn að þurfa að ávísa í hvert skifti, sem þörf er á peningum til greiðslu smáreikninga.

Út af athugasemd nr. 21 er það að segja, að vegamálastjórinn var að eins 2 dögum of seinn að skila reikningum sínum, og þess vegna var ekki hægt að sníða LR. eftir þeim. Í raun og veru skekkist ekkert við þetta, því alt kemur til greina næsta ár, og þess vegna sje jeg litla ástæðu til að átelja þetta. Yfirskoðunarmennirnir halda því að vísu fram, að alt, sem gert sje í ár, eigi að koma fram á landsreikningnum fyrir sama ár. Þetta er alveg ný kenning. Hingað til hefir ekki þótt rjett að færa það til útgjalda, sem ekki var búið að borga út, og eins yrðu landsreikningarnir seint búnir með því lagi. Fyrst þyrfti að safna saman öllum reikningum og endurskoða þá, og þá fyrst væri hægt að byrja á landsreikningunum. Þetta kæmi ekki vel heim við aðra athugasemd yfirskoðenda, sem sje þá, að landsreikningarnir kæmu of seint og þyrfti að flýta fyrir þeim. Hingað til hafa landsreikningarnir að eins verið skýrsla yfir tekjur og gjöld, en ekki sundurliðuð skrá yfir framkvæmdir í landinu það ár.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) gerði mikið úr því, að hægt væri að vita, hvað færi til hvers fyrirtækis fyrir sig. Þetta væri vitanlega gott, en þá yrðu landsreikningar að vera með öðru sniði en nú, ef það ætti að sjást af þeim, og þá yrði hv. þm. (J. B.) að sætta sig við að fá þá mun seinna. Enda engin ástæða til þessarar breytingar, og þessa aðferð, sem yfirskoðunarmenn vilja taka upp, notar engin verslun hjer á landi og ekkert fyrirtæki.