15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

123. mál, landsreikningarnir 1916 og 1917

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er ekki ástæða fyrir mig að vera margorður. Fjárhagsnefnd, eða hv. frsm. (M. G.) fyrir hennar hönd, hefir staðið fyrir svörum, og þarf þar litlu við að bæta. Við till. í sjálfu sjer hefi jeg lítið að athuga. Jeg tel það sjálfsagt að aðskilja algerlega ríkis- og viðlagasjóð. Það er í alla staði óviðfeldið, að lán er veiti úr viðlagasjóði án þess þar sje nokkurt fje fyrir hendi, en öllu svo skelt á landssjóð. Líklegt að minna verði gert að þessu þegar skilnaður er orðinn á milli sjóðanna. Annars er hjer ekki um neitt stórmál að ræða.

Um 2. athugasemdina hefi jeg ekki annað að segja en að hún er sjálfsögð; sjálfsagt að halda sjer sem fastast við ákvæði fjárlaganna, en ófriðartímarnir hafa gert það að verkum, að stundum hefir orðið að víkja frá þeim.

Athugasemdir, sem fram hafa komið í þá átt, að ýmsir liðir hafi breyst eftir að landsreikningurinn var gerður, eru mikið sprottnar af því, að endurskoðendurnir hafa ekki athugað, að landsreikningurinn er reikningur yfir tekjur og gjöld, og svo hitt, ef landsreikninginn mætti ekki semja fyr en búið væri að endurskoða undirreikningana, þá er hætt við, að drátturinn á reikningnum þætti nokkuð langur. En ef undirreikningarnir eru ekki endurskoðaðir áður en landsreikningurinn er saminn, þá getur aldrei verið nákvæmni í landsreikningnum, eftir þeirri kröfu, sem endurskoðendurnir gera.

Mjer virðist þetta alt svo ljóst, að ekki þurfi að eyða mörgum orðum að því.