17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í B-deild Alþingistíðinda. (2586)

161. mál, leiðbeiningar við Íslendinga, sem flytjast heim úr öðrum löndum

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi í stuttri greinargerð með þessari tillögu nefnt höfuðástæðurnar fyrir því, að jeg flyt hana, og hygg jeg, að það sje nægilegt til að sýna rjettmæti hennar. — Það er enginn vafi á, að þetta er rjett aðferð, sem hjer er viðhöfð, að skora á stjórnina með þingsál.till., þegar er að ræða um verkamenn í hennar þjónustu. Því getur hún ekki barið því við, að hún fái þessa hvatningu í tillöguformi.

Annars held jeg, að það sje meira vit í þessari tillögu og þarfara það, sem þar er farið fram á, heldur en margt annað, sem gert er út í bláinn, eins og t. d. það, að veita fje til þess að halda við íslensku þjóðerni í Ameríku.

Það er ekki gott að vita, hvernig aðrar þjóðir kunna að líta á það, að stórveldið Ísland fari að blanda sjer inn í mál þeirra á þann hátt. Hinu getur aftur enginn reiðst, þó við reynum að búa eitthvað í haginn fyrir þá, sem vildu flytjast heim til ættjarðar sinnar aftur. Jeg ætla annars ekki að fjölyrða neitt um þetta, en læt það á vald hv. deildar, hvort hún verður svo ósamkvæm sjálfri sjer að fella þessa tillögu.