17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2286 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

161. mál, leiðbeiningar við Íslendinga, sem flytjast heim úr öðrum löndum

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal játa, að jeg sje ekkert á móti því, að slík tilmæli, er felast í þessari tillögu, komi fram í svona formi, því það má víst með sanni segja um þessa tillögu, að hún sje bæði meinlaus og gagnslaus. Annars á þessi tillaga víst að vera einskonar yfirbót af hálfu hv. þm. Dala. (B. J.) fyrir það, að hann var með til að gera óaðgengilegra fyrir Íslendinga að hverfa heim aftur til landsins, og sömuleiðis fyrir það, að hann gat ekki fallist á, að veitt yrði eftir hans mælikvarða lítil upphæð til manns, sem átti að fara til Ameríku. En þessi yfirbót háttv. þingmanns er æðivesöl, og jeg býst ekki við, að hann fái mikla þökk fyrir hana hjá Íslendingum erlendis. Jeg skal að endingu segja, eins og hv. frsm. (B. J.) sagði, að jeg læt hv. deild alveg ráða því, hvort hún samþykkir till eða ekki, því jeg tel hana gersamlega þýðingarlausa.