17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

161. mál, leiðbeiningar við Íslendinga, sem flytjast heim úr öðrum löndum

Benedikt Sveinsson:

Jeg get ekki fallist á, að þessi tillaga sje svo gersamlega þýðingarlaust, eins og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) lætur í veðri vaka. Jeg býst við, að ef till. verður samþykt, þá telji hæstv. stjórn sjer skylt að fara eftir henni og veita þær leiðbeiningar, sem ætlast er til samkvæmt henni. Eins og hv. þm. Dala. (B. J.) tók fram, þá hefir það komið fyrir, að Íslendingar hafa komið vestan um haf og ætlast að setjast hjer að, en verið tekið heldur tómlega, og ekki haft neinn sjer til leiðbeiningar. Þeir hafa því orðið fyrir vonbrigðum, og afleiðingin orðið sú, að þeir hafa horfið vestur aftur. Öðru máli væri að gegna, ef hjer væri einhver stofnun, sem þeir gætu snúið sjer til og fengið nauðsynlegar upplýsingar. Þá hefðu þeir margir hverjir, getað sparað sjer það fje, sem ferðin fram og til baka kostaði, og leitað fyrir sjer um atvinnu og annað þess háttar áður en þeir legðu af stað. En í þess stað hafa þeir komið hingað, gripið í tómt og hvergi fundið athvarf. Það skiftir miklu meira máli en margir ætla, að greiða eitthvað fyrir þeim, sem leita hingað heim, og eins að glæða heimfararhug íslenskra manna í öðrum löndum, því að þeir, sem víða hafa farið og dvalist í menningarlöndunum, munu oft vel til þess fallnir að hagnýta sjer það hjer heima, sem þeir hafa sjeð fyrir sjer annarsstaðar og athugað, að hjer mundi mega að gagni koma. Glögt er gests augað. Og munur er að mannsliði. Það er tvímælalaus hagur fyrir landið að fá aftur heim góða borgara, er setjast hjer að. Enda hefir reynslan sýnt það, að oft koma þeir heim eftir dvöl erlendis, sem mikið lið er að, og flytja oft með sjer nýjar og mikilsverðar framfarir. T. d. voru það Vestur-Íslendingar, sem fyrstir manna fluttu heim þekkingu um íshús og settu þau á stofn, og svo mundi verða um fleira. Það er illa farið, þegar slíkir menn verða að hröklast hjeðan aftur fyrir vanbúnað af vorri hálfu, sem þó kostaði lítið að lagfæra. — Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði, að þurfa mundi að stofna sjerstaka skrifstofu til þessa. Það kann að vera rjett, þegar um mikinn innflutning væri orðið að ræða. En fyrst um sinn held jeg, að það nægi, sem till. fer fram á. Þótt inn í landið kæmu 5–10 fjölskyldur á ári, þyrfti ekki að stofna sjerstaka stöðu þess vegna. Ef það væri bersýnilegt, að innflutningurinn mundi aukast og vaxa stjórnarráðsskrifstofunni yfir höfuð, þá væri stjórninni innan handar að fá samþykki þingsins til aukinnar fjárveitingar til skrifstofu, eða þess manns, sem um þetta ætti að sjá. Jeg held, að það sje í samræmi við andann hjer á þingi og í landinu yfir höfuð, að veitt yrði nokkurt fje til þess að reyna að hæna Íslendinga til landsins aftur. Það ætti því að taka þessari till. vel.