20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

164. mál, laun hreppstjóra

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þessa þingsál.till., eftir að jeg var gengin úr skugga um, að ekki ætti að taka neitt tillit til hreppstjóra í launalögunum, sem hefði þó að mínu áliti verið rjettmætt. Því þótt segja megi, að launalög þeirra sjeu tiltölulega ný, þar sem þau eru að eins frá 1917, þá er þó mikil breyting orðin á síðan, og launin engin laun, eins og þau voru ákveðin þá. Fastalaunin eru í flestum hreppum um 80 krónur, og sjá allir, hvaða kaup það er fyrir menn í fastri stöðu. Það er ekki hálft vinnukonukaup. Í lögunum frá 1917 er líka tekið fram, að aldrei megi borga þeim hærra sólarhringskaup en 6 krónur, sem er smánarborgun, þegar litið er til verkkaups nú. Bændur í sveitum hafa nú orðið peningalegt fjártjón af því að vera svo vel að sjer, að þeim sje trúandi fyrir opinberum störfum, þar sem þeir verða að vinna þau því nær kauplaust. Jeg færði það í tal við launamálanefndina í sumar, hvort hún ætlaði ekki að taka hreppstjórana upp í lögin, og tók hún því ekki fjarri, er. af einhverri ástæðu hefir það samt farist fyrir. Og þegar jeg sá útsjeð um þetta, fanst mjer rjett að bera fram þessa till.

Það má auðvitað benda á fleiri starfsmenn, sem vinna fyrir sama sem ekki neitt, eins og t. d. skattanefndirnar. Er það náttúrlega ranglátt, þegar þess er gætt, að störf þeirra hafa nú upp á síðkastið aukist að miklum mun. Sama má og að nokkru leyti segja um sýslunefndarmenn og oddvita og hreppsnefndarmenn. Það er líka orðið svo í seinni tíð, að enginn fæst til að vera oddviti nema hinn lögákveðna tíma. En iðuleg oddvitaskifti eru óheppileg og geta haft slæmar afleiðingar fyrir sveitirnar. En að jeg ekki tók oddvitana hjer með kom af einskonar hæversku, af því að jeg hefi sjálfur verið oddviti í hartnær 40 ár, og hefði því mátt segja, að jeg væri að vinna mjer sjálfum í hag.