17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

163. mál, rannsókn skattamála

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg býst ekki við að þurfa að láta mörg orð fylgja jafnsjálfsagðri till. og þessari.

Það er öllum ljóst, í hvert efni hjer er komið, ef ekki verður bráðlega að gert

Útgjöldin aukast hröðum skrefum, og þótt sköttum sje hlaðið á skatt ofan. þá nær það hvergi nærri til að fylla þá hít.

Við slíkt sleifarlag má því ekki lengur sitja, ef landið á ekki að lenda niður í botnlaust skuldaforað.

Skattar þeir, sem nú hafa verið lagðir á, hafa flestir eða allir lent þar á, sem hægast er að ná þeim, og er það vorkunnarmál, þar sem skattamálin öll eru formlaus og á ringulreið.

Við þetta má því ekki lengur sitja.

Hjer þarf að gera ítarlega rannsókn og koma skattamálum öllum í fast framtíðarhorf.

Hæstv. stjórn hefir nú oftlega látið það í ljós, að mál þetta verði að rannsaka. Það gæti því virst óþarft að koma fram með till. þessa. En svo er þó ekki, því að í fyrsta lagi er það ekki víst, að núverandi hæstv. stjórn endist aldur til þessara framkvæmda, og í öðru lagi verður að heimila stjórninni, hver svo sem hún er, fje það, sem nauðsynlegt er til undirbúnings málsins. Till. hefir því við full rök að styðjast.

Jeg skal nú ekki fara að ræða um það, hvernig skattamálunum skuli fyrir komið í framtíðinni. Til þess brestur mig þekkingu.

En það er vilji okkar flm., að stjórnin geri þegar á næsta ári alt, sem fært er til að bæta fyrirkomulagið.

Nú er það vitanlegt, að öll lönd í heimi þurfa að auka skatta sína, og það er því víðar en hjer, sem rannsaka þarf þetta mál.

Nú vakir það fyrir mjer, að stjórnin gæti aflað sjer þekkingar í þessum sökum af reynslu annara og rannsóknum.

Hefir mjer því dottið í hug, að hún gæti fengið einhvern vel valinn mann til að kynna sjer, hversu þessu er fyrir komið í öðrum löndum. (B. K.: Þarf ekki, því að hjer kemst aldrei neitt vit að) Hv. 1. þm. G.-K. (B.K.) heldur, að hjer komist ekkert vit að, en það var þó tilætlun okkar, að þessu yrði fyrir komið bæði með viti og sanngirni.

Að vísu má altaf deila um það, hvaða skattar sjeu sanngjarnir. En mín hugsun var sú, að þeir yrðu látnir borga mest, sem bökin hafa breiðust, en ekki altaf haldið áfram að auka skatta á nauðsynjavörum.

Mörgum af sköttunum er nú svo fyrir komið, að það er ekkert annað en nefskattar, eins og t. d. sykurtollurinn. Hann og aðra fleiri verða allir að borga jafnt, hvort sem ríkir eru eða fátækir, því að allir þurfa lífsnauðsynja við.