25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Mjer þykir hlýða að láta þessari till. okkar til þingsál. fylgja nokkur orð. Það hefir mikið verið um það rætt, hve mikið afl við ættum fólgið í fallvötnum okkar. Menn hafa gert sjer glæsilegar vonir um þau þægindi og það hagræði, sem þau gætu veitt landsmönnum, þegar þau væru komin í notkun. Margir hafa spáð því, að í þessum vötnum lægi framtíð Íslands. Menn hafa ekki að eins ætlað, að þau mundu breyta öllum híbýlaháttum vorum, heldur mundu þau og gerbreyta öllum atvinnuvegum og fyrirtækjum hjer á landi. Og flestir hafa álitið, að þessi breyting yrði til bóta. Sumir efast um gæfuna, sem af þessu leiddi fyrir heildina. Þeir líta svo á, að alt sje undir því komið, hverjir beisli fossana, og hvernig það afl, sem úr þeim fæst, sje notað. Það sem aðallega hefir vakað fyrir almenningi viðvíkjandi virkjun fossanna, eru þau algengu þægindi, svo sem rafmagn til ljósa og hitunar, smáiðnaðar og þess háttar. Alþýða manna hefir síður gert sjer grein fyrir, hver áhrif það hefði, ef farið væri að reka hjer stóriðnað. Hver sem í það rjeðist, hver sem beislaði fossana í stærri stíl, þá er það víst, að það hefði mikil áhrif á allan lifnaðarhátt manna, og sumt yrði óneitanlega til bóta. Jeg fyrir mitt leyti er ekki í efa um það, að þetta getur því aðeins orðið til bóta, að landið sjálft taki starfræksluna í sínar hendur.

Eins og drepið hefir verið á, þá eru allar helstu orkulindir landsins í höndum útlendinga. Það getur þess vegna ekki verið að ræða um, að landið taki að sjer að starfrækja þetta afl, nema að það taki í sínar hendur eitthvað af þeim stórám eða vatnsföllum, sem nú eru í annara höndum. Þetta verður landið að gera, hvaða skilningur sem ofan á kann að verða um það, hver eigi vatnið í raun og veru.

Þegar það kemur til álita, hvar landið eigi að leita fyrir sjer, þá er á margt að líta. Það verður að líta á vatnsaflið sjálft, hvað mikið það er, og hve auðvelt er að nota það. Það verður að líta á afstöðu þess til þeirra staða, sem helst þyrftu á þessu afli að halda, líta á umhverfið og flutningsmöguleika, ræktunarskilyrði landsins til búnaðar og annað þess háttar. Þetta hygg jeg að mönnum verði fyrst til að líta á.

Eins og menn vita, þá er þannig ástatt um það vatn (Sogið), sem hjer er um að ræða. Það er hagkvæmast frá því sjónarmiði, sem jeg lýsti áðan. Allir, sem eitthvað þekkja þar til, eru sammála um það, að varla geti ákjósanlegri stað hjer á landi. Það liggur tillölulega nærri Reykjavík, en þar yrði þörfin fyrir rafmagnið mest. Því er þannig í sveit komið, að það liggur í einhverju best búnaðarhjeraði landsins og nærri besta markaðinum fyrir innlendar afurðir. Umhverfið er lítt ræktað, en getur borið margfalt meira en nú er. Auk þess eru nú í undirbúningi búnaðarframkvæmdir, sem margfalda framleiðslumagn þessara hjeraða, þar sem eru vatnaveitingarnar. Slík aðstaða hlýtur að gera mikið og ráða mestu um virkjun vatnsaflsins. Flutningar yrðu ekki ýkjaörðugir, því það liggur nærri Reykjavík. Þar hefir það líka aðalmarkað sinn fyrir rafmagnið, og í kauptúnunum austan fjalls, sem líka mundu mikið nota það. Af þessu er það auðsætt, að landið verður að ná tangarhaldi á þessu vatnsfalli, og það eru fleiri en jeg, sem vænta þess, að svo verði. Jeg vona, að flestir hv. þingdeildarmenn geti verið mjer sammála um þetta, geti orðið sammála um það, að landið þarf nú þegar að gera ráðstafanir til að ná Sogsfossunum á sitt vald.

Í þessu sambandi ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp örstutta greinargerð frá rafmagnsnefnd, sem bæjarstjórn Reykjavíkur skipaði til að íhuga þetta mál 1917. Greinargerðin hljóðar þannig:

„Rannsókn F. I. virðist hafa leitt það í ljós, sem og mátti vænta, að Elliðaárnar hafa ekki nóg framtíðarafl handa Reykjavík. Jafnvel þó renslisjöfnun, stíflun og stöðvabyggingu við Elliðaárnar sje hagað svo, að smám saman megi auka aflið alt upp í 4800 hestöfl, þá er fyrirsjáanlegt, að sá tími kemur, að sú hestaflatala nægir ekki.

Nú er ekkert vatnsfall til vestan Mosfellsheiðar og Hellisheiðar, sem hefir svo mikið afl, að slægur sje í því til viðbótar við afl Elliðaánna. Næsta vatnsfallið, sem komið getur til greina, er Sogið. Enda er það líka hentugasta vatnsfallið, sem völ er á til rafmagnsframleiðslu handa Reykjavík, þegar sá tími kemur, að efni og ástæður leyfa byggingu nægilega stórrar rafmagnsstöðvar til matreiðslu og hitunar. En eins og nú er ástatt, er engin trygging fyrir því, að Sogið verði laust eða fáanlegt í þessu skyni, þegar kraftar Reykjavíkur leyfa, að slík stöð verði reist. Þetta virðist oss þó nauðsynlegt að tryggja, og að því miðar tillaga II.“

Þessi tillaga II, sem jeg ætla líka að lesa upp, með leyfi forseta, hljóðar þannig:

„Að bæjarstjórnin fari þess á leit við landsstjórnina, að með lögum verði heimilað að taka vatnsaflið í Soginu eignarnámi handa Reykjavíkurkaupstað, eða til vara, að vatnsaflið í Soginu verði tekið eignarnámi handa landsstjórninni, en Reykjavíkurkaupstað trygður kauprjettur án framfærslu að svo miklu af vatnsaflinu, sem kaupstaðurinn vill nota“.

Þessi ályktun var lögð fram á fundi í bæjarstjórn Reykjavíkur 27. febr. 1917 og var þá til umræðu. En eins og kunnugt er, þá ákvað bæjarstjórnin í fyrra sumar að byggja stöð til bráðabirgða við Elliðaárnar. Það, sem rjeð mestu um, að sú samþykt var gerð, var hið hörmulega ástand í heiminum. Eldsneyti og ljósmeti var í afarverði, og miklar horfur á, að skortur yrði á því; í það minsta gat enginn sagt um það, hvort nægilegt yrði til af því. Alt útlit var fyrir, að hinn mesti atvinnuskortur yrði í bænum, og var ætlast til, að vinnan við að byggja þessa stöð bætti úr atvinnuleysinu. Þá voru og gefnar góðar vonir, af verkfræðingunum, sem rannsakað höfðu þetta mál, að vel vinnandi væri að fá trygga og aflmikla stöð við Elliðaárnar. Enginn gat þá sagt um, hve stríðið stæði lengi, og það var sem rjeð, að þessi samþykt var gerð; ella mundi það ekki hafa orðið. Hið ískyggilega ástand rjeð beinlínis, að samþykt var að byggja þessa stöð. Og nú þegar átti að fara að framkvæma þetta verk, þá hefir sitthvað komið í ljós, sem bendir á, að áætlanir þær, sem gerðar hafa verið um þetta verk, standast hvergi nærri, og menn fjarlægjast það meir og meir, eftir því sem lengur líður, að byggja þessa stöð. Öllum var það ljóst, enda sjest það skýrt á þeirri greinargerð, sem jeg las upp, að þessi stöð gat ekki orðið til annars en að bæta úr brýnustu þörfinni í svip. Eins og vitanlegt er, þá var að eins þörf Reykjavíkur höfð fyrir augum, enda ekki að vita, hve nær landið rjeðist í slíka virkjun. En ef landið ræðst í að virkja nokkurt vatnsafl, þá getur enginn vafi leikið á því, og um það virðast allir sammála, að Sogið er eini staðurinn, sem komið getur til greina fyrst um sinn. Þar hlyti fyrsta stöðin að verða reist. Og ætti Reykjavíkurbær að byggja sjer framtíðarstöð, þá er enginn staður eins vel til þess fallinn og Sogið. Að þeirri niðurstöðu komst nefndin (1917), sem falið var að rannsaka málið ítarlega, og er það engin furða. Jeg hefi líka bent á áðan, hvers vegna þessi staður er best til virkjunar fallinn. Þegar þetta alt er tekið með, þá má það ekki dragast lengur, að landið nái ótvíræðum umráðarjetti og notarjetti yfir þessu vatnsfalli. Og þá auðvitað fyrir sjálft sig, en ekki í því skyni, að eftirláta þann rjett eða þau rjettindi neinum, hvorki Reykjavíkurbæ nje öðrum. En Reykjavík mundi nú samt með því gerður hinn mesti greiði, svo hún hætti við að byggja stöðina við Elliðaárnar.

Þá kem jeg að hinu atriðinu, hvort landinu muni vera þetta kleift. Jeg get því miður ekki gefið þær upplýsingar, sem æskilegar væru. Þó hefi jeg nokkuð reynt að kynna mjer málið. Jeg hefi grenslast eftir því, hvað vötn hafa verið seld með afli og rjettindum til notkunar á landi eftir þörfum til notkunar vatnsaflinu. Niðurstaðan hefir orðið sú, að vanalega er hestaflið selt fyrir svona um 30–60 aura. Það er nokkuð mismunandi. Eftir því ætti Sogið að kosta um 50 þús. kr. Það kann að vera, að það mundi ekki vera selt fyrir það verð. Það yrði má ske dýrara. En það ætti ekki að vera frágangssök, þó að það yrði eitthvað dýrara. Það borgaði sig þó áreiðanlega að taka það. Jeg hefi hvað eftir annað bent á, hvað vel því er í sveit komið og hvað það þess vegna er mikils virði. Hestaflið í Soginu er verðmætara en í nokkru öðru vatnsfalli, vegna þess að þar er hægast að nota það. Auk þess get jeg nefnt eitt enn, sem gerir Sogið verðmætara, og það er Þingvallavatn. Vegna þess er ekki hlaup eða þurð í Soginu; vatnið sjer um, að aflið og vatnsmagnið sje nokkurn veginn jafnt alt árið í kring. Það er vatnsgeymir fyrir Sogið, gerður af náttúrunnar völdum.

Þá er að athuga, hvað það mundi kosta að virkja Sogið. Þar er ómögulegt að segja neitt ábyggilegt. Alt er á hverfanda hveli í því efni. Jeg get að eins skýrt hjer frá lauslegri áætlun um kostnaðinn, og hún er um bæði tilfellin, bæði það, hvort virkja á 40 þús. eða 60 þús. hestöfl. Þessi áætlun er frá verkfræðingnum Guðm. Hlíðdal og er látin í tje rafmagnsnefndinni, sem bæjarstjórn Reykjavíkur skipaði í málið.

Þessi áætlun er bygð á rannsókn fyrir fossafjelagið Ísland, og er gert ráð fyrir, að fá megi 44 þús. hestöfl fyrir 3,214 þús. kr. Þá var viðhalds- og rekstrarkostnaður 327,220 kr. Með hærri stíflu var áætlað, að fá mætti 61 þús. hestöfl, og þau kostuðu 5,547 þús. kr., en viðhald og rekstrarkostnaður yrði 527,940 kr. í þessari áætlun var ekki talinn með kostnaður við vega- og járnbrautalagningu, en Hlíðdal bjóst við, að hann mundi verða 920 þús. kr. Þess ber enn að geta, að alt efni og vjelar eru miklu dýrari nú en þegar áætlunin var gerð.

Jeg vænti þess, að hv. deild taki málinu vel og sjái, að hjer er um almenningsheill að ræða. Jeg er á sömu skoðun og þeir hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að ekki sje æskilegt að fá erlent auðmagn inn í landið til stóriðju. Jeg er ekki eins hrifinn af því gulli og þeim grænu skógum, sem sumir álíta að því fylgi. Jeg get ekki haldið annað en að það verði hjer sem annarsstaðar, að þeir, sem flytja fjeð inn, skoði sig ávalt sem útlendinga og hugsi að eins um að græða eins mikið fje og þeim er unt. Því fje veita þeir svo inn í sitt eigið land. Gróði okkar yrði þá lítill, og erfitt yrði að afstýra þeim illu afleiðingum, sem stóriðja og innflutningur erlends verkafólks hlyti að hafa í för með sjer.

Að endingu vil jeg vona, að deildin taki málinu vel, og jeg vænti stuðnings hennar til að hrinda því áfram. Jeg ætla að leyfa mjer að leggja til, að málinu verði vísað til fossanefndarinnar að lokinni umræðunni, og vænti þess, að hún breyti því og fari með það eftir því, sem hún álítur heppilegast. Jeg álít, að það sje óþarfi að brýna fyrir mönnum að athuga málið vel; jeg býst við, að það sje mikilvægt í augum allra deildarmanna, eins og það er mikilvægt í mínum augum.