25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Bjarni Jónsson:

Það var út af orðum hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að jeg stóð upp.

Mjer þótti vænt um að heyra þá yfirlýsingu frá honum sem flm. till., að sá væri ekki tilgangur þeirra hv. flm., að fá það viðurkent hjer á þingi, að vatnið væri eign einstaklinganna.

En það, sem jeg sagði áður um orðalag till., bendir í þá átt, þar sem talað er um lögnám á vatnorku. Jeg sundurliðaði þá rjettindi einstaklinganna til umráða og afnota, svo sem til veiða, áveitu, drykkjar, yfirflutnings og fleira. Það alt mætti taka eignarnámi, og sömuleiðis vatnsbakkann og lönd, sem að liggja; að eins ekki vatnorkuna. Um hana má ekki hafa þau orð, að taka eignarnámi.

En svarið var mjer fullnægjandi, og þarf því ekki annað en lagfæra orðalagið, svo að þetta verði dómstólamál eftir sem áður.

Þó jeg nú telji þetta aukaatriði, þá skal það játað, að það verður því stærra, því meir sem verðið hækkar. Og ef þessi litli hluti, sem bærinn hefir keypt af Soginu, hefir kostað 30 þús. kr., þá verður Sogið dýrt alt. Þetta er að eins strengur með öðrum bakkanum, en enginn foss. Það er víst ekki meira en lítill hluti af öllu afli Sogsins.

Verð alls vatnsins fer því nokkuð að hækka, og verður því viðurhlutameira að kasta því burt, sem bæði jeg og einn helsti lögfræðingur landsins heldur fram, að ekki sje eignarhæfur hlutur, heldur heyri undir yfirráð ríkisins, eins og almannafje, „res communes“.

Þá vil jeg nefna því til styrktar, að landið taki Sogið til virkjunar, hestorknatölu þá, sem það er talið hafa. Með þeim ágæta vatnsmiðli, sem minst hefir verið á, Þingvallavatni, er talið, að úr því megi fá 60–70 þús. hestorkur.

Þess má geta til, að Reykjavík og nálægir bæir hjer ásamt Eyrarbakka og Stokkseyri, auk smáþorpa, sem þar kynnu að myndast eystra, og bóndabæja, sem nærri liggja, mundu bráðlega þarfnast helmingsins af því afli. Það mundi svara til einnar hestorku á mann, og er það ekki of mikið í borið, þar sem hjer mundi koma upp smáiðnaður ýmiskonar, þegar farið er að virkja vatnið og kostur gefst aflsins.

Þá eru ekki eftir nema um 30 þús. hestorkur, sem ráðstafa þyrfti landinu að skaðlausu og háskalausu.

Þá má gera ráð fyrir, að 7–10 þús. hestorkur færu til þess að vinna salt úr sjó, sem mikil líkindi eru til að hjer megi gera, þó vissara sje að bíða með það þar til sjest hefir, hve vel ganga tilraunir Norðmanna í þeirri grein.

Þá eru enn eftir um 20 þús. hestorkur, sem leyfa mætti til ýmissar iðju, sem fátt fólk þarf til. Mætti t. d. taka til þess af fólki því, sem hjer er í bænum og fæst til að flytja burt, þótt lítið sje við að vera.

Það mundi að líkindum frekar fást til að flytja til slíkra iðjuþorpa.

Með þessu móti væri sjeð um það, að alt þetta svæði hefði næga raforku til ljósa og hita og ýmissa starfa, sem nú þarf bifvjela við; t. d. prentsmiðjur í bæjunum, trjesmíðavjelar o. fl. gætu fengið þaðan afl.

Þetta væri mikill ávinningur, og ætti að geta trygt þennan hluta landsins fyrir öðrum eins hörmungum og hjer hafa dunið yfir, þegar eldsneyti og ljósmeti hafa komist í tífalt verð. Og það veit enginn, hve langt er þess að bíða, að slíkt beri aftur að höndum, eða það sem verra er, að þær vörur verði ófáanlegar.

Þetta er aðferðin, að taka minni vötnin til hagnýtingar, svo að landsmenn fái orkuna til sinna þarfa, án þess að stóriðnaður komist að. Fyrirtækið verður því að vera sniðið svo, að það beri sig án hans. Þetta verður því stærsta vatnsfallið, sem tekið verður fyrst um sinn. Til viðbótar má velja smærri vötnin annarsstaðar.

Þá mun alt vel fara, híbýli manna verða betri og bjartari og lífið ljettara, án þess að þjóðerni og tunga sje lagt í sölurnar.

Þá var að eins eitt enn, sem jeg vildi segja við hv. flm.

Það var ekki rjett, sem annar þeirra (B. Sv.) virtist halda fram, að jeg væri hjer að vekja deilu. Það var að eins fyrirspurn, sem jeg kom fram með. Raunar minti jeg hv. aðalflm. (J. B.) á það, að fleiri hefðu talað um Sogið og skoðað það en þeir, sem hann taldi upp. En það var alls ekki til þess að mótmæla. Enda hefir það, sem hjer er farið fram á, altaf verið mitt keppikefli í málum þessum.

Kemur það fram í frv. því, sem jeg flutti 1917, þegar Íslandsfjelagið sótti um sjerleyfið til virkjunar.

Stóð jeg þá í þeirri meiningu, að vatnið væri eign einstakra manna, en vildi láta landið kaupa. Sjest það best á 3. gr. þess frv., en hún er svo:

„Lög þessi heimila stjórninni sjerstaklega að beita eignarnámsheimildum þeim, er getur í 2. gr., til þess að taka í sínar hendur fossa og vatnaafl á Suðurlandinu, er best liggur við til notkunar“.

En það er einmitt Sogið. Þar af geta hv. flm. ráðið, að jeg hefi aldrei verið á móti því, að landið taki það til umráða.

Jeg býst því við, að hv. flm. geti skilið það, að það er annað, að spyrja um eitt einstakt atriði, en hitt, að setja sig á móti málinu.

En jeg hefi að eins spurt, og þegar fengið svar við þeirri spurningu minni, svo að hjer er ekki um neitt deiluefni að ræða.