25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Háttv. meðflm. minn (B. Sv.) hefir þegar tekið að mestu af mjer ómakið, að því er snertir ræðu hv. þm. Dala. (B. J.).

Um orðið „lögnám“ í fyrirsögn till er það að segja, að það var alls ekki meiningin með því að blanda þessu máli inn í deiluna um eignarrjettinn. Í því skyni völdum við orðalagið, sem er á tillögunni sjálfri, um að landsstjórnin næði umráða- og notarjetti á Soginu.

Það getur vel verið, að mátt hefði finna annað betra, en þá mun óhætt að treysta hv. nefnd til þess.

Stefnan með till. er að eins sú, að landið nái fullum og óskoruðum rjetti á þessu vatnsafli.

Um þau orð hv. þm. (B. J.), að jeg hefði getað nefnt fleiri, sem sjeð hefðu Sogið, er það að segja, að jeg minnist ekki þess, að jeg hafi verið að telja þá menn upp, enda mætti það æra óstöðugan að telja þá alla upp, auk hinna, sem um það hafa ljósar hugmyndir án þess að hafa sjeð það eigin augum.

Þau orð hv. þm. (B. J.) voru því alveg óþörf.

Tilgangur till. er sá, eins og jeg drap á í framsöguræðu minni, að ýta við mönnum meðan tími er til, svo að þeir láti ekki vatnsfall þetta ganga úr greipum sjer. Þar með er ekki sagt, að byrja skuli á útbyggingunum þegar í stað.

En jeg verð að telja það hafa nokkuð til síns máls að koma fram með till. þessa nú. Á frv. hv. þm. Dala (B. J.), á þgskj. 44, þar sem talað er um rannsókn Sogsins, er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn við þá rannsókn verði endurgreiddur landsgróði af þeim, sem fær það til virkjunar.

Hv. þm. (B. J.), sem mjer hefir virst altaf hafa staðið fremstur þeirra manna hjer, sem ekki hafa viljað láta ganga landinu úr greipum orkulindir þess, hann er þá ekki enn kominn lengra en það, að hann gerir ráð fyrir, að besta og hentugasta afllindin verði öðrum leyfð til afnota.

Þó ekki hefði annað en þetta verið, þá veitir það till. fullan rjett.

Sami hv. þm. mintist á það, að hann hefði altaf haldið því fram, að nauðsyn bæri til þess, að landið hefði þessi yfirráð. En fyrst hann, þrátt fyrir þá skoðun, er ekki kominn lengra en frv. hans sýnir, hvar munu þeir þá standa, sem aldrei hafa komist með tærnar í hælaför hans í þessu máli?

Varla munu þeir vera komnir langt á undan honum? Eða er varlegt að gera ráð fyrir því?

En jeg vona nú samt, að augu þeirra opnist einnig fyrir því, hve nauðsynlegt er að tryggja landinu orkulindir sínar.

En eitt er víst, að því lengur sem það verður dregið, því dýrara og erfiðara verður það. Nú er það öllum ljóst, hve dýrmætt Sogið er og hve nauðsynlegt það er, að landið nái umráðum yfir því. Frv. háttv. þm. (B. J.) er því tilgangslaust, þar sem engar rannsóknir þarf til, til þess að sannfærast um, að landið verður að ná þessum yfirráðum.

Sú rannsókn gæti blátt áfram orðið landinu til tjóns, ef hún færi fram áður en það hefir náð umráðunum.

Hjer er því farið algerlega öfugt að og kenni jeg það óglöggskygni hv. þm. (B. J.), en ekki hinu, að hann vilji ekki vel.

Mjer þótti vænt um að heyra það, að þrátt fyrir þetta frv. sitt er hann eindregið með því, að landið nái sem fyrst umráðum yfir vatninu, og vonast jeg því eftir stuðningi hans í fossanefndinni, svo að mál þetta verði afgreitt á heppilegan hátt, þegar á þessu þingi.

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um ræðu hv. þm. S.-Þ. (P. J.); hún snerti lítið till. Hann virtist sakna þess, að jeg fór ekki nákvæmar út í ályktanir bæjarstjórnarinnar. En mjer fanst það ekki skifta nokkru í þessu máli.

Það er satt, að hún tók aftur ósk sína 1917, þegar fossafjelagið „Island“ leitaði leyfis til að virkja Sogsfossana. Var það af því, að hún hjelt, að þær óskir gætu þá orðið til að tefja fyrir því, að bærinn fengi rafmagn. Hún bjóst þá ekki við því, að landið tæki vatnsaflið í sínar hendur, enda kom það ekki í ljós, að hæstv. stjórn gerði neinar ráðstafanir til þess.

Bæjarstjórninni var því vorkunn þó hún drægi sig í hlje í bili.

Nú hefir það komist í orð að byggja smástöð inni við Elliðaár, eins og jeg gat um áðan. En sjálfsagt hefði það aldrei verið samþ., ef ekki hefði verið slíkur skortur, sem var á eldiviði og ljósmeti í fyrra.

Það var eina ástæðan, sem rjeð, því að undir eins þegar frjettist til friðar og menn fengu von um, að nægilegt næðist til elds og ljósa, þó engin von væri um verðlækkun fyrst um sinn, þá mundi alls ekki hafa fengist meiri hluti atkvæða í bæjarstjórn fyrir þessu.

Þetta sýndi því að eins, hve þörfin er mikil fyrir rafmagn í Reykjavík. Þó þykir mjer líklegt, að bæjarstjórnin hætti við það að byggja þessa smástöð, þrátt fyrir það, að hún var búin að ákveða það. Það bætist líka á, að því betur sem það fyrirtæki er rannsakað, því veikari verður trúin á það. En auðvitað er þessi tillaga ekki komin fram eingöngu vegna hagsmuna Reykjavíkur, heldur, og allra helst, vegna hagsmuna landsins alls.

Um þessi 30 þús. kr., sem varið hefir verið til vatnskaupa í Soginu, er það að segja, að það getur ekki verið neinn mælikvarði á það, hvað kosta muni alt Sogið.

Það hlýtur að fara eftir því, hvað það kostar þá, sem nú hafa umráðin yfir því.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) drap á, að ekki þyrfti að taka vatnið eignarnámi, ef það kæmi upp úr kafinu, að landið ætti vatnið. Þessu er því að svara, að það mál er alveg óútkljáð, og má ekki skilja till. okkar flm. (B. Sv.) svo, að við í því kveðum nokkuð á um það atriði. Við eigum að eins við, að landið taki það eignarnámi, eins og lög standa til, sem ómögulegt verður að komast hjá að greiða fyrir. Þá drap hv. sami þm. (P. J.) á, að till. væri óþörf og mætti bíða, því að vatnið hyrfi ekki. Það er að sönnu rjett, að ekki er hætt við, að vatnið hverfi, en fyrir því er till. ekki óþörf. Það gæti sem sje farið svo, að eftir nokkur ár yrði aðstaðan orðin svo breytt, að landssjóður gæti ekki komist yfir vatnið nema með ærnum kostnaði og örðugleikum, sem nú eru ekki fyrir hendi. Fyrir þennan brunn viljum við birgja meðan tími er til. Till. þessi er því nokkurskonar varúðarráðstöfun, því þó landssjóði sje fremur fjefátt nú, er ekki víst, að honum verði hentara að borga ef til vill miklu meira fje síðar. Gæti með því verið sparaður eyririnn, en hent krónunni, og því miður er margt bæði í sögu þings og þjóðar, sem sannar, að það hefir oft verið gert. Ættu þau víti að verða okkur nú að varnaði.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till., og vona jeg, að hv. deild sýni í verkinu, að hún sje samþykk okkur flm. (B. Sv.) um, að sem fyrst beri að ná tangarhaldi á þessu vatni.