25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Sveinn Ólafsson:

Það er fátt eitt af því, sem komið hefir fram, sem jeg vil minnast á.

Fyrst og fremst skal drepið á deiluna um eignarrjettinn að vatninu. Nú virðist það vera að koma í ljós, að sú deila sje ekki óverulegt aukaatriði, eins og sumir hafa verið að klifast á hjer í deildinni, og hallmæla minni hl. fossanefndar fyrir að hafa klofið sig frá vegna hans.

Allir, sem talað hafa, eru sammála um það, að nauðsyn beri til, að ríkið fái sem fyrst umráð yfir Soginu, og er það enginn vafi, að svo er; kostnaðurinn verður meiri og aðstaðan erfiðari eftir því sem tímar líða. Um þetta er ekki deilt, en það, sem veldur orðasennunni, er að menn vilja ekki ákveða sig viðvíkjandi spurningunni um eignarrjettinn. Þess vegna kemur það nú berlega í ljós, að sú spurning er aðalatriðið í þessu máli, já, svo róttæk, að ómögulegt virðist að framkvæma tillöguna, jafnvel ekki orða hana, án þess að hnjóta um eignarrjettinn. Ósk þeirra manna, sem vilja láta ríkið ná umráðum á vatnsaflinu í Soginu, veltur á, hvernig komist verður fram hjá þessum meinlega slagbrandi, sem meiri hl. fossanefndar skaut inn í málið með því að vekja þessa fáránlegu deilu um eignarumráðin. Væri sá moðreykur horfinn, mundu leiðir auðfundnar að því að ná Soginu undir umráð ríkisins. Þessi fáu orð get jeg látið mjer nægja um þetta atriði, en það er ýmislegt annað, sem borið hefir á góma, sem jeg vil stuttlega drepa á.

Hv. þm. Dala. (B. J.) hefir tvívegis tekið það fram, að búið væri að selja því nær alla vatnsorku í landinu, sem nokkurs væri verð, og það skifti því eigi máli, hver teldist hafa umráð leifanna. Út af þessum ummælum hv. þm. (B. J.), og sjerstaklega af því, að hann hefir tvívegis slegið þeim fram, vil jeg leyfa mjer að upplýsa að á öllu svæðinu frá Þjórsá austur um land og hálfhringinn að Jökulsá á Fjöllum er alt óselt. Þessi fullyrðing þm. (B J.) er því fullkomin staðleysa. Enn fremur skal þess getið, að engin vatnsrjettindi hafa verið seld í Skagafjarðarsýslu, lítið í Húnavatnssýslu, ekkert í Dalasýslu, ekkert í Mýrasýslu og tiltölulega lítið í Borgar- fjarðar- og Snæfellsnessýslum. Þegar vel er athugað, kemur því í ljós, að miklu meira er óselt en selt. Þess vegna er ríkinu eigi þörf að taka mörg vötn lögnámi, og því síst með bessaleyfi.

Aðstöðunnar vegna virðist þá nauðsynlegt, að ríkið fái umráð yfir Soginu, en ekki vegna þess, að það eigi ekki nægt af vatni óbundið, bæði á fasteignum sínum og í almenningum. Minna mætti á Botnsá í Hvalfirði í ríkisþarfir eða hjeraðs, þótt hún muni í eignarumráðum einstakra manna.

Eitt atriði hefir hv. þm. Dala. (B. J.) tekið fram, sem mjer hefir ekki gefist kostur á að mótmæla fyr en nú, og það er, að einstaklingar hafi farið svo óvarlega með það vatn, er þeir töldu sig eiga, að þeim sje ekki trúandi fyrir því í framtíðinni. Hjer til er því fyrst að svara, eins og áður var nefnt, að flestir eiga óselt enn í dag. Í öðru lagi má það til afsökunar telja þeim, sem ógætilega hafa fargað vatnsrjettindum, að þar hefir ríkið verið þeim til fyrirmyndar. Það hefir leigt vatnsrjettindi sín mjög kappsamlega, og fyrir smáræði, svo sem Brúarfossa í Laxá, Goðafoss í Skjálfandafljóti, Hafursstaðafoss í Jökulsá, Sogsfossana að austan og loks Urriðafoss í Þjórsá, sem einn er leigður hærri leigu. Það á því ekki við að dreifa hjer óvarkárni einstaklinganna eingöngu, heldur er sjálft ríkisvaldið samsekt; það hefir gengið á undan með illu eftirdæmi og fargað fyrir hálfan hleif bestu fallvötnum sínum.

Þá vil jeg snöggvast koma að áætluninni um kostnað við töku Sogsins og virkjun. Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) taldi líklegt, að taka vatnsins kostaði stórfje. Á það get jeg ekki fallist. Hvorki er leigumáli „Skjálfanda“ í Soginu svo hár, nje heldur hefir fjelagið kostað miklu til undirbúnings. Eftir leigusamningnum, sem mun vera frá 1907, eru Sogsfossarnir leigðir fyrir 1500 kr. árlega fyrstu 5 árin, þá 2250 kr. um 10 ár, en 3000 kr. þaðan af. Hæsta leiga kemur því ekki til fyr en 1923. Tilvitnun hv. þm. (P. J.) til kaupa Reykjavíkurbæjar á parti úr Kistufossi þýðir ekkert. Það var að eins lítill hluti allrar vatnsorku Sogsins, og auk þess er kaupsamningur sá mjög hæpinn, og ef til vill tóm markleysa, því að Sogið virðist alt leigt „Skjálfanda“ eftir samningnum 1907.

Kostnaðaráætlunin um 15 miljónir til að virkja Sogið er óþörf grýla. Það liggur alt eins nærri að ætla, að þá virkjun megi gera fyrir 7–8 miljónir, úr því að „Titan“ áætlar virkjun á Urriðafossi með orkutaugum til Reykjavíkur að eins 7 miljónir, og hann þó talinn tvígildur við Sogið.

Jeg álít þess vegna ekki að eins æskilegt, heldur einnig álitlegt, að taka Sogið eignarnámi til ríkisvirkjunar. Jeg nefni hiklaust eignarnám, því að jeg viðurkenni enga aðra leið færa án samninga, og hjer er um efunarlausa eign að ræða þeirra, sem land eiga að vatninu.