25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Fyrst vil jeg víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), og get jeg þá frætt hann á því, að það vatnsafl, sem bæjarstjórnin keypti, er allmikið, og jeg þykist mega fullvissa hann um, að tryggilega sje gengið frá öllum samningum. En hversu margar hestorkur bærinn á í Soginu get jeg ekki sagt með neinni vissu, því það hefir ekki enn þá verið rannsakað til fulls svo jeg viti.

Hv. þm. Dala. (B. J.) getur skemt sjer við að hafa fylgst með í því, að rannsóknarkostnaðurinn við Sogið skyldi endurgreiðast landssjóði af þeim, sem veitt yrði heimild til að virkja það, og talið það sem vott um ötulleik sinn í þessu máli. Ef hv. þm. (B. J.) hefði verið einlæglega trúaður á það, að landið bygði út fossana, og alls ekki viljað annað, þá hefði hann ekki getað verið með þessu ákvæði. En þar sem hv. þm. (B. J.) hefir áður viljað ganga svo langt, að litlar horfur hafa verið á, að margir gætu fylgt honum fyrir þær sakir, en vill nú hins vegar ekki fara lengra en frv. ber með sjer, hefði maður rjett til að giska á, að þeir, sem áður voru miklu hægfarari í þessu máli, mundu nú standa heldur aftarlega og vera smástígir (B. J.: Vill þm. hlífa þeim við að greiða í landssjóð, sem fær að virkja?). Jeg álít, að það komi ekki til mála, að aðrir virki Sogsfossana en landið sjálft. Þetta er því að eins undanhald í málinu hjá hv. þm. Dala. (B. J.). (B. J.: Hv. þm. gengur illa að skilja). Þm. (B. J.) tjáir ekki að hreykja sjer af því, að hann skilji þetta betur en aðrir. Um það mundu hv. þingdeildarmenn geta borið og aðrir þeir, sem heyrt hafa til. (B. J.: Þm. getur ekki greint rjett frá röngu). Hann getur það engu síður en hv. þm. Dala. (B. J.).